26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (4411)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 213 beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Hvaða þátt hefur ferðamálaráð átt í ráðstefnuhaldi hér á landi s. l. 2 ár?

2. Hvaða ráðstafanir, ef einhverjar eru, eru nú á döfinni hjá ferðamálaráði til eflingar og skipulagningar á ráðstefnuhaldi erlendra aðila hér á landi?

3. Hefur ráðh. falið ferðamálaráði einhver sérstök verkefni, sem tengd eru ráðstefnuhaldi hér á landi, sbr. 4. lið 12. gr. laga nr. 29 frá 30. apríl 1964?

4. Hefur Ferðaskrifstofa ríkisins skipulagt eða komið til leiðar, að alþjóðastofnanir hafi haldið hér ráðstefnur?“

Ferðamálin hafa eðlilega verið hér nokkuð til umræðu manna á meðal undanfarið, en svo undarlega vill til, að hér á Alþ. er mjög erfitt að fá umr. um þau. Við fluttum hér fjórir þm. 1968 till. til þál. um þriggja ára áætlun í ferðamálum og töldum þá hver fyrir sig, að við hefðum fært nokkur rök fyrir því að taka málið upp. Enginn sjálfstæðismaður fékkst til að vera með á þáltill. Fyrsti flm. var Björn Jónsson, annar flm. þá var Eysteinn Jónsson, ég var þriðji og Steingrímur Pálsson var fjórði. Þetta mál fékkst aldrei tekið til umr. Síðan hefur einn og einn þm. verið að reyna að ýta við ferðamálunum, en þau eru þung til umr. hér. Ég reyndi sjálfur með lítils háttar frv. í Ed. í haust. Að því var gert hreint grín í blaði hæstv. ráðh., Morgunblaðinu. Það er allt í lagi með það. Það má gera grín að því fram og aftur. Þess vegna datt mér í hug að beina örfáum fsp. til ráðh. um það, hvað væri raunverulega aðhafzt í þessum efnum, og tók aðeins á þessu stigi fyrir vissan þátt, er varðaði ráðstefnuhald hér á Íslandi, vegna þess að mjög víða erlendis er þetta orðinn snar þáttur í ferðamálunum.