26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (4412)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er leiðinlegt, ef það gengur svona illa að fá umr. um ferðamálin hér á hv. Alþ. Ég hef bara ekki gert mér grein fyrir því. Ekki hef ég staðið gegn því, að þetta væri gert. Ég hef ekki staðið gegn því. Ég vil, að það komi fram, og ég fyrir mitt leyti hefði miklu fremur ánægju af því að ræða um þessi mál heldur en að þau verði þöguð í hel hér á hv. Alþ. Ég hefði ánægju af því, einmitt vegna þess að ferðamálin hafa þróazt ánægjulega í seinni tíð. Nú er farið að tala um ferðamálin sem atvinnugrein, sem geti gefið þjóðinni erlendan gjaldeyri, geti verið þýðingarmikill þjónustuatvinnuvegur, sem veiti fjölda manna atvinnu. Er þetta ekki rétt? Og hvers vegna skyldum við ekki ræða um þessi mál? Hvers vegna skyldum við ekki hafa ánægju af því að ræða um mál, sem eru í hraðri uppbyggingu?

Það má geta þess, að fyrir 10 árum komu til landsins aðeins 10 þús. erlendir ferðamenn, en á árinu 1970 munu þeir hafa verið nærri því 60 þús., eitthvað lítið innan við 60 þús. Þetta er ör þróun. Ég man ekki núna, hversu mikinn erlendan gjaldeyri var gert ráð fyrir, að þjóðin hefði fengið af erlendum ferðamönnum á s. l. ári. (Gripið fram í: Tæplega einn milljarð.) Tæplega einn milljarð. Það er líklega alveg rétt. Það hefur verið tæplega einn milljarður, svona 800–900 millj., sem við höfum fengið í erlendum gjaldeyri, vegna þess að ferðamannastraumurinn hefur aukizt til landsins. Og hvernig stendur á því, að ferðamannastraumurinn hefur aukizt svona mikið til landsins? Hefur þetta gerzt alveg af sjálfu sér, eða hefur eitthvað verið gert til þess að ýta undir, að svo mætti verða? Hvernig var þetta t. d. hér í hótelmálunum fyrir 10 árum? Þá var Hótel Saga ekki komin. Þá var Hótel Loftleiðir ekki komið. Þá var Hótel Holt ekki komið. Þá voru fleiri hótel, sem enn eru í uppbyggingu hér í Reykjavík, ekki komin, ekki Hótel Esja. Og hvernig var þetta úti um landsbyggðina? Það hefur orðið ákaflega mikil breyting þar líka til batnaðar með það að taka á móti ferðamönnum, frá því sem áður var.

En þetta hefur ekki gerzt af sjálfu sér. Þetta hefur verið gert, vegna þess að það hefur verið ýtt undir þetta með mörgum ráðum. Og ferðamálaráð, sem sett var á laggirnar samkv. lögum um ferðamálaráð og ferðamálasjóð 1963, á stóran þátt í, að þetta gat orðið. Ferðamálasjóður hefur lánað til uppbyggingar ferðamálanna, sérstaklega úti á landi, og það hefur ráðið úrslitum víða, að hægt hefur verið að byggja hótel og bæta aðstæðurnar, vegna þess að lán fékkst úr ferðamálasjóði. Ferðamálaráð hefur starfað sem ráðgefandi stofnun fyrir ríkisstj. allt frá þessum tíma.

Þessi fsp., sem hér er fram borin á þskj. 213, tölul. 3, er um það, hvaða þátt ferðamálaráð hefur átt í ráðstefnuhaldi hér s. l. tvö ár. Það er náttúrlega aðeins einn þáttur í starfsemi ferðamálaráðs, og eins og hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, þá víkur hann hér aðeins að þessum eina þætti. Út af fyrir sig er ekki nema ágætt að ræða einnig um það, því að ráðstefnuhald hér á landi er vitanlega einn þátturinn í því að auka ferðamannastraum, og ráðstefnurnar gætu e. t. v. orðið á þeim tíma, þegar sízt er að vænta hins almenna ferðamanns. Nú er það svo, að talsvert hefur verið að því gert að halda ráðstefnur erlendra fyrirtækja eða félagasamtaka hér á landi að undanförnu. En það hefur fram að þessu vantað góða aðstöðu til þess. Ég hef tekið hérna saman örlítið um þetta, og þykir mér rétt, herra forseti, að lesa það upp í samhengi sem svar við áðurnefndri fsp.:

Svo sem kunnugt er, er ekki til þess ætlazt af löggjafarvaldinu, sbr. lög nr. 4 1969, að ferðamálaráð hafi bein afskipti af framkvæmd einstakra þátta ferðamála. Hins vegar er ráðinu ætlað að vera ráðgefandi aðili Alþ. og ríkisstj. um allt, sem að ferðamálum lýtur í landinu. Þá skal ráðið bera fram till. um framkvæmdir og umbætur, sem það telur nauðsynlegar hverju sinni. Að þessum meginþáttum starfsemi sinnar hefur ferðamálaráð unnið eins vel og kostur hefur verið og í ágætri samvinnu við rn. Á s. l. tveim árum hefur m. a. verið unnið að undirbúningi allsherjaráætlunar um íslenzk ferðamál á breiðum grundvelli og þá um leið athugaðir möguleikar á ráðstefnuhaldi, enda eru ráðstefnur einn af fjórum þáttum, sem ferðamálaráð og ferðamálasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna hafa bent á sem möguleika til að auka fjölda erlendra ferðamanna til landsins. Svo sem kunnugt er, hefur af rn. hálfu verið leitað eftir tækniaðstoð hjá Sameinuðu þjóðunum til athugunar á allsherjaruppbyggingu ferðamálanna; og er einn þáttur uppbyggingarinnar að koma á ráðstefnuhaldi. En nákvæmar og gaumgæfilegar athuganir mála taka í þessu efni sem og öðrum nokkurn tíma, ef vel skal vanda.

Nú má segja, að svo langt sé komið, að fyrir liggi jákvæðar undirtektir Sameinuðu þjóðanna um aðstoð. Næsta skrefið er svo að ráða sérfróða aðila til að gera endanlegar áætlanir, og þá verður ráðstefnuhald einn þáttur þess, og nú er búið að gera ráðstafanir til þess að fá þennan sérfróða mann. Það er verið að vinna að því nú. Einn þátturinn er ráðstefnuhald og allsherjaráætlun a. m. k. til 10 ára um ferðamál, ekki þrjú ár, það þykir hinum sérfróðu mönnum allt of stuttur tími og ekki heppilegt. Þeir telja, að það þurfi að vera minnst 10 ár, jafnvel 15, ef gera á áætlun um uppbyggingu þessarar atvinnugreinar á traustum og eðlilegum grundvelli.

Ferðamálaráð hefur oft rætt um ráðstefnuhald hérlendis og möguleika til þess að koma því á. Ráðið hefur m. a. bent borgaryfirvöldum á þann möguleika að sameina ráðstefnuhald öðrum notum af hinum mikla sýningarskála, sem nú er verið að reisa á Miklatúni. Geta má þess einnig, þó að það sé ekki vegna starfsemi ferðamálaráðs nema óbeint, að í hinu nýja hóteli Loftleiða verður vel séð fyrir ráðstefnuaðstöðu. M. a. verður í húsinu 100 manna salur á hallandi gólfi með öllum tækjum, sem í ráðstefnusal þurfa að vera, t. d. tækjum til að túlka ræður af einu máli á annað. Þá verður í nefndu hóteli 200 manna salur með sléttu gólfi, sem einnig er m. a. ætlaður fyrir ráðstefnur. Til gamans má geta þess, að samkv. öruggum upplýsingum, sem ferðamálaráð hefur aflað erlendis frá, þá eru 75–80% allra ráðstefna með 150–200 þátttakendur.

Spurt er að því, hvaða ráðstafanir, ef einhverjar eru, séu nú á döfinni hjá ferðamálaráði til eflingar og skipulagningar á ráðstefnuhaldi erlendra aðila hér á landi. Ég held, að svar við þessu hafi nú falizt í því, sem ég er búinn að segja, eða vona það.

Þá er spurt að því, hvort ráðh. hafi fengið ferðamálaráði einhver sérstök verkefni, sem tengd eru ráðstefnuhaldi hér á landi, sbr. 4. lið 12. gr. laga um ferðamál. Þá er þess að geta, að ráðh. hefur falið ferðamálaráði og sérstökum nefndum að vinna að ýmsum verkefnum, m. a. að gera till. um fjármögnun og þörf fyrir gistirými, bæði hér í borginni og úti á landsbyggðinni, fram til ársins 1974. En á því ári er búizt við sérstaklega mörgum ferðamönnum til landsins, og við þurfum að búa okkur undir það að geta veitt þeim fjölda öllum viðtöku.

Gistirými er frumforsenda fyrir ráðstefnuhaldi, svo sem öðrum þáttum ferðamálanna. Þess vegna haldast í hendur alhliða markaðskönnun, sem væntanlega verður falin sérfróðum mönnum að fengnum stuðningi Sameinuðu þjóðanna, og hótelþörfin í næstu framtíð eða til ársins 1974, sem sérstök nefnd vinnur nú að, svo sem að framan greinir. Þannig hefur fyrir forgöngu rn. verið gerð athugun og undirbúningur á ráðstefnuhaldi erlendra samtaka og félaga á komandi árum. Ferðaskrifstofa ríkisins annast svo almenna landkynningu og er í sambandi við erlenda aðila í því skyni og gerir mikið til þess að kynna landið og vinna að því, að erlendir ferðamenn komi hingað. Það má einnig segja um ýmsar fleiri ferðaskrifstofur, að þær geri það sama og gefi út bæklinga í fjölda upplaga, sem verða til þess að kynna landið og auka ferðamannastrauminn hingað til lands. Og þess má geta, að í lauslegri áætlun, sem gerð hefur verið á vegum ferðamálaráðs, er gert ráð fyrir, að erlendir ferðamenn muni verða um 150 þús. árið 1980, ef vöxturinn verður eitthvað svipaður og hann hefur verið núna síðustu átta árin.