26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (4413)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það er ánægjulegt að vita til þess, að það er ýmislegt á döfinni og einmitt í þeim anda, sem við lögðum til hérna á sínum tíma í þessari þáltill. Þá kom líka fram, að vel mætti vera, að þriggja ára áætlun væri of stutt, réttara að taka, eins og einn orðaði það, 5+5 ár í þessu efni, vegna þess að það sýnir sig alls staðar í heiminum, að þó að menn séu bjartsýnir um ferðamál, þá hafa menn aldrei verið of bjartsýnir, vegna þess að bættur efnahagur a. m. k. í Evrópu og í nokkrum öðrum löndum hefur leitt það af sér, að fólk veitir sér meiri ferðalög en verið hefur. Samgöngur eru orðnar svo góðar, að þrátt fyrir margan annan kostnað, sem hefur farið hækkandi á ýmsum þáttum, hefur kostnaðurinn við ferðalög, a. m. k. milli landa, farið minnkandi. E. t. v. er fyrst vottur þess í dag, að hann sé hækkandi, miðað við það, sem heyrzt hefur varðandi alþjóðasamtök flugfélaganna, en hingað til hefur flugkostnaðarþátturinn í ferðalögunum farið lækkandi. Það er því mjög eðlilegt, að menn vilji sjá sig um. Menn þurfa að vera sérstaklega vel vakandi fyrir því að beina ferðamönnum hingað til landsins, og það eru mjög margir aðilar, sem leggja því lið, og eiga þeir mestu þakkir skilið. Og ég heyri það, að forusta er ágæt hjá hæstv. ráðh. í samgrn.