26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (4415)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég efast ekkert um það, að hv. þm., sem hér var að tala áðan, hefur haldið, að hann væri að gera ferðamálunum gott með því að beita sér fyrir flutningi þessarar till., sem hann nefndi, og er gramur yfir, að hún komst ekki einu sinni til nefndar á síðasta þingi, og kennir mér um það, — ekki til umr. heldur, kennir mér um það. Það er nú ekki þannig, að ég sé svo áhrifamikill hér á þingi, að ég ráði því, hvort mál séu tekin til umr. eða ekki, og mér hefur aldrei komið til hugar, jafnvel þó að ég gæti haft áhrif á það, að beita mér á þann hátt. En því miður er það nú svo, að þó að þessi till. hafi verið flutt í góðum tilgangi, þá átti hún náttúrlega ekkert erindi inn á Alþ. í þeim búningi, sem hún var, vegna þess að hér var aðeins talað um þriggja ára áætlun. Hv. þm. segir, að ég hafi rætt um, að það þyrfti að vera fimm ára áætlun. Við þurfum nú ekki að deila um það, hvað við höfum sagt, vegna þess að það stendur skrifað í þingtíðindunum. Ég man ekki betur en ég hafi þá talað um tíu ára áætlun, alveg eins og nú. Og sannleikurinn er sá, að ef á að gera áætlun um skipulagningu, hvort sem það eru ferðamál eða annað, þá þarf það að vera til nokkuð langs tíma, og ferðamálin taka náttúrlega óendanlegan uppbyggingartíma hjá okkur. Og mér þykir dálítið skrýtið, að hv. þm. skuli ræða um þetta af þykkju hér nú, þegar það er upplýst, að rn. og ferðamálaráð hafa verið að vinna að þessum málum að undanförnu í þeim anda, sem hv. þm. hefði helzt óskað, því að hann vildi vinna að því þannig, að sem beztur árangur næðist, en ég held, að það detti engum í hug að segja, að það hafi ekki náðst góður árangur í ferðamálum núna í seinni tíð. Og það dettur engum manni í hug að segja, að rn. hafi legið á liði sínu. Ég held, að hv. þm. hafi ekki sagt það, og áreiðanlegt er það, að hann meinar það ekki, heldur hlýtur hann að viðurkenna, að að þessum málum hefur verið unnið í seinni tíð með góðum árangri.

Hv. þm. sagði, að ferðamálaráð hefði viljað mæla með þessari þriggja ára till. Það er alveg öfugt við það, sem formaður ferðamálaráðs sagði við mig. Hann sagði, að áætlun til þriggja ára væri algerlega óraunhæf og ferðamálaráð gæti ekki mælt með henni. Ég man ekki, hvort það kom einhver umsögn frá ferðamálaráði til þeirrar n., sem hafði með þetta mál að gera. Ef það hefur verið, þá liggur hún fyrir, og þarf þá ekki að deila um það, hvað í þeirri umsögn liggur. En ef hún hefur ekki komið, þrátt fyrir beiðni flm., þá er það vegna þess, að ferðamálaráði hefur ekki fundizt taka því að svara, vegna þess að till., þó að hún væri flutt í góðum tilgangi, var þannig, að hún gat ekki verið til gagns.

Það er svo annað mál með öræfin, og ég get verið hv. ræðumanni sammála um það, að það þarf að umgangast öræfin og hina ósnortnu náttúru með gætni. En þar höfum við Náttúruverndarráð, sem einmitt er með þetta á sinni könnu og mun hafa samráð við ferðamálaráð og rn. um það, að öræfin og hin ómengaða náttúra verði meðhöndluð eins vel og unnt er, þannig að sem minnstu verði spillt. Og þótt þetta væri nú í till., sem má segja, að hafi verið góðra gjalda vert, þá hefði það ekki út af fyrir sig flýtt fyrir eða bætt neitt fyrir sérstaklega, vegna þess að þessi mál eru í athugun, alveg eins og verið hefði, þótt eitthvað hefði verið búið að samþykkja um þetta. Það vantar ekki skilning á því.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að segja meira um þetta að sinni og því síður ástæðu til þess að vera nokkuð að ergja sig út af þessu máli, þótt hv. þm. teldi nú nokkra ástæðu til þess að sýna vanþóknun sína á því, hversu dauflega var á sínum tíma tekið undir þessa till. til áætlunar um ferðamál til þriggja ára, sem sérfróðir menn í þessum málum töldu alls ekki raunhæft að tala um.