26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í D-deild Alþingistíðinda. (4416)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það getur vel verið, að ég hafi verið að ergja mig með minni stuttu ræðu áðan, en það má þá hver lá mér sem vill, þó að mönnum gremjist það, að mál þeirra fái ekki þinglega afgreiðslu hér í þinginu. Það er að vísu ekkert einsdæmi í sambandi við þessa till., en til fyrirmyndar er það ekki, og ég tel, að þm. séu í fullum rétti að verða argir út í þau vinnubrögð hv. Alþ.

Um þá fullyrðingu hæstv. ráðh., að þessi till. okkar fjórmenninganna hafi ekkert erindi átt hér inn á þing, vegna þess að það hafi bara verið áætlun til allt of stutts tíma, vil ég nú segja það, að það hefði verið hægur vandi fyrir góðviljaða menn í þessu máli að gera breytingar á till., láta hana fá eðlilega afgreiðslu og breyta þessu þá í fimm eða tíu ár, eftir því sem þingheimi hefði þótt betur henta. Og það hefði áreiðanlega ekki sætt neinum mótmælum af okkar hálfu, að það hefði verið gert. En hitt er ég sannfærður um, að á þeim tíma hefði verið raunhæfara að gera áætlun til frekar stutts tíma, bráðabirgðaáætlun, og hefði það ekki á neinn hátt þurft að hindra það, að unnið væri að málunum til lengri tíma.

Að menn hafi yfirleitt verið sammála um það, að þessi till. væri varla þinghæf, ætti ekkert erindi á þing og hefði engu góðu til leiðar getað komið, um það held ég, að fáir hv. þm., sem á annað borð hafa kynnt sér till., geti verið honum sammála. Sjálfur ræddi ég við formann ferðamálaráðs um þessa till., og a. m. k. þori ég að fullyrða, að hann var aðalefni hennar og meiningu fullkomlega sammála, þó að hann hefði kannske viljað hafa hana eitthvað öðruvísi. Það skal ég ekki segja um. Það kom ekki fram í því víðtali, sem ég átti við hann.

Ég ætla nú ekki að karpa um það, þar sem þingtíðindin eru ólygnust um það, en ég man það eins og ég veit, að ég stend hér í þessum ræðustól, að hæstv. ráðh. sagði þá, að þetta væri þýðingarlaust af þeirri ástæðu, að það væri verið að vinna að fimm ára áætlun, og það skildist greinilega á honum, að hún væri rétt ókomin. Nú eru þrjú ár liðin síðan þetta var og kannske heldur betur, og það hefur hvorki áætlun til þriggja, fimm eða tíu ára séð dagsins ljós, og hæstv. ráðh. er enn með það í burðarliðnum að fá einhverja til þess að gera þessa áætlun.

Ég er svo aftur þakklátur hæstv. ráðh. fyrir það, hvernig hann tók undir það, sem ég sagði hér um öræfin, nauðsyn á opnun þeirra og reglum, sem settar væru þar um umgengnisvenjur, en ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hér er ekki bara um náttúruverndarmál að ræða. Náttúruverndarráð sér ekki um vegamálin í þessu landi, og ég tel það nauðsynlegt í sambandi við endurskoðun á vegáætlun og vegalögum, að við fyrsta tækifæri verði komið þar inn verulegri fjárveitingu í þessu skyni, og ég vænti þess, vegna þess að hæstv. ráðh. tók þó vel undir þetta atriði í sambandi við till. okkar og mitt mál, að sú verði raunin á, að verulegu fé verði varið í þessu skyni. Ég teldi mikið fengið með því, og þá fyrst væri grundvöllur fyrir því, að náttúruverndarsjónarmiðið yrði tekið til greina í sambandi við þetta og settar reglur um ferðir manna og umgengnisvenjur á öræfunum. Fyrr er það ekki mögulegt. Þangað til eitthvað slíkt kemur, halda menn áfram að brjótast um á Weaponum og öðrum stórvirkum tækjum án tillits til þess, hvert tjón náttúra öræfanna bíður af þeim sökum. Ég hef sjálfur ferðazt ofurlítið um öræfin. Ég hef verið að reyna að þræða slóðir eftir landabréfi, og það hefur lítið stoðað, vegna þess að það hefur verið búið að mynda svo margar slóðir, að raunverulega er öllum ómögulegt að rata eftir þeim. Þannig er ástandið. Það eru kannske tugir slóða um sama veginn, jafnvel vegi, sem merktir eru inn á okkar vegakort.