26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (4420)

175. mál, hagnýting jarðhita

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði, að gróðurhúsaeigendum og garðyrkjubændum fyndist málið ganga nokkuð hægt og tiltölulega lítið gert í þessum málum. En hv. fyrirspyrjandi nefndi nú ekki, hvað honum fyndist sjálfum um þetta efni. Báðir höfum við gott tækifæri til þess að hitta garðyrkjubændur. Hv. fyrirspyrjandi býr í Reykholti, nærri hverunum þar og jarðhitanum í Borgarfirði. Þegar ég fer til míns heima, fer ég fram hjá Hveragerði og hef gott tækifæri til þess að hitta garðyrkjubændur, og ég veit þess vegna alveg, hvað klukkan stær í þessu tilfelli. Ég geri ráð fyrir því, að bæði ég og hv. fyrirspyrjandi höfum alveg gert okkur grein fyrir því, að garðyrkjan í landinu er mikið atriði og mikils virði og verðskuldar það, að henni sé veitt athygli. Og garðyrkjan á að fá réttmætan stuðning, til þess að hún geti þróazt. Ég veit, að það er enginn ágreiningur á milli mín og fyrirspyrjanda um þetta.

Ég held, að garðyrkjubændur hafi alveg gert sér grein fyrir því, að það tekur langan tíma að gera ítarlegar tilraunir í sambandi við þá till., sem hér er vitnað í og samþ. var á Alþ. 17. maí 1969. Garðyrkjubændur eru það raunsæir í hugsun, að þeir hafa alveg gert sér grein fyrir því, að það var ekki að búast við fullu svari á árinu 1970 og ekki heldur á árinu 1971 við þeim spurningum, sem þessi till. raunverulega varpar fram. Á árinu 1970 var haldin fjölmenn og merk ylræktarráðstefna hér í Reykjavík, og þar var einmitt rætt um þessa till., um efni hennar og um það, hversu nauðsynlegt það væri að hefja þær rannsóknir, sem hér er talað um. Ég kom á þessa ráðstefnu og talaði þar nokkur orð, og ég tók undir óskir garðyrkjumanna í þessu efni. Ég taldi, að tilraunirnar ættu að fara fram sem mest á einum stað og kröftunum yrði ekki dreift. Og ég taldi, að það væri heppilegast, að tilraunirnar færu fram við Garðyrkjuskóla ríkisins. Þar væri bezt aðstaða, þar væri hægt að prófa það efni, sem heppilegast væri til gróðurhúsagerðar, þar væri hægt að reyna það efni, sem bezt væri til þess að flytja heita vatnið og gufuna, þar gætu jarðvegsrannsóknirnar farið fram og allt það, sem garðyrkjunni tilheyrir. En ég hafði, eftir að till. var samþ., skrifað Rannsóknastofnun landbúnaðarins og falið henni þessa athugun. Nú hef ég fengið bréf frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þar sem starfsmenn hennar segjast fúsir til að vinna að þessu og eru eitthvað byrjaðir á því, en telja, að þeir þyrftu helzt að fá til sín sérfræðing til þess að geta látið þessar rannsóknir fara fram. Og það var einmitt þetta svar, sem sannfærði mig um það, að þessar athuganir ættu að fara fram við Garðyrkjuskólann, svo að nemendurnir við Garðyrkjuskólann gætu einnig notið góðs af því að vera viðstaddir þessar tilraunir og læra þannig af reynslunni. Og í tilefni af þessu var fjárveiting til tilrauna við Garðyrkjuskólann á fjárlögum þessa árs hækkuð um 500 þús. kr. frá því, sem áður var. Það má vel vera, að þetta sé of lítið, en ég hygg þó, að mörgum garðyrkjumönnum þyki þetta viðurkenning á því, sem hér á að vinna að, og það gera sér allir ljóst, að þessum rannsóknum lýkur ekki á 1–2 árum.

Ég held, að garðyrkjubændum finnist það mikið atriði, að það er veitt sérstaklega fé í þessu skyni í fjárlögum fyrir þetta ár og það verður á kerfisbundinn hátt unnið að þessum rannsóknum og athugunum við Garðyrkjuskóla ríkisins. Ég hef talað við marga garðyrkjubændur, sem telja það vel ráðið að efla alla tilraunastarfsemi einmitt við Garðyrkjuskólann og dreifa ekki kröftunum, það sé heppilegra. Þar séu sérfræðingar á flestum sviðum og þannig muni sparast fé miðað við það, að ráðinn hefði verið sérfræðingur eða sérfræðingar til þess að vinna að þessum málum við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Það er sjálfsagt að nota þá góðu krafta, sem við Garðyrkjuskólann eru, og þá að bæta við starfsmönnum þar, því að Garðyrkjuskólinn er í uppbyggingu. Nýja húsið er að verða fullbúið. Þegar því er lokið, geta nemendur orðið þar allt að 40 í staðinn fyrir 12 áður í gamla skólanum, og þetta getur orðið myndarleg stofnun, sem verður aflgjafi fyrir garðyrkjuna og ylræktina í landinu. Garðyrkjubændur hafa gert sér fulla grein fyrir þessu, og ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi geri sér líka á raunhæfan hátt grein fyrir því, að rn. hefur ætlazt til, að þessar rannsóknir færu fram, og það er búið að leggja undirstöðuna að því, að svo verði gert.