26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (4421)

175. mál, hagnýting jarðhita

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þau eru einfaldlega á þá leið, að núna þegar næstum tvö ár eru liðin síðan þessi till. var samþ., þáltill. sú, sem fsp. mín snertir, þá hefur ekkert verið gert. Það hefur ekkert verið unnið að þeim athugunum, sem till. gerði ráð fyrir, aðeins unnin undirbúningsstörf og ýmislegt reyndar óljóst um það. Mér skilst jafnvel á ráðh., að þegar hann skýtur málinu til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þeir segjast þurfa að fá sérfræðing til þess að gera rannsókn í þessum málum, þá telji hann eftir sérfræðinginn, en vilji láta Garðyrkjuskólann í Hveragerði sjá um þetta og spara þannig peninga. Ég tel, að þetta sé það mikilvægt mál, að það eigi ekki að spara t. d. kostnað við einn sérfræðing, þegar um athuganir á þessum málum er að ræða.

Hann minnist á hina merku ylræktarráðstefnu, sem haldin var á s. l. sumri, og segist hafa komið þar og haldið ræðu og tekið vel undir óskir garðyrkjumanna. Spurningin er nú ekki um þetta. Spurningin er um framkvæmdir á óskum þeirra, og það sýnist vera, að það vanti allmikið á.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en ég legg áherzlu á, að þetta er mjög þýðingarmikið mál, og ég vil í leiðinni átelja það, hvernig farið er með allt of margar þál. Það er jafnvel svo, að þegar ráðh. eru spurðir um þær, eins og nú ekki alls fyrir löngu, þegar spurt er um leirverksmiðju í Dalasýslu, 7–8 ára gamla till., þá svarar forsrh. því til, að hann hafi látið menn leita að till. eða einhverju, sem snertir þessa till., í ýmsum skjalasöfnum rn. og ekkert hafi fundizt. Ég tel, að þetta séu svona heldur hastarleg svör og hastarleg niðurstaða, sérstaklega þar sem t. d. í þessum tilfellum báðum eiga hlut að máli sem flm. flokksbræður þessara hæstv. ráðh. Þetta vil ég sem sé átelja, að ráðh. taki lítið sem ekkert tillit til þeirra ályktana, sem Alþ. hefur samþykkt.

Ég átta mig ekki alveg á upphafsorðum hæstv. ráðh., en hann gaf þar í skyn, að hann þekkti garðyrkjubændur á Suðurlandi, og að því er mér skildist, þá virtist honum, að garðyrkjubændur á Suðurlandi væru ekki óánægðir með hann sem ráðh., væru bara býsna hrifnir af honum sem ráðh. Ég efast ekki um það, að menn séu hrifnari af hæstv. ráðh. á Suðurlandi heldur en á Vesturlandi.