02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (4440)

336. mál, heimavistarkostnaður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að skýra frá því við þessa umr., að eftir að þessi skýrsla hæstv. ráðh. birtist hér á þingi og frá henni var síðan sagt í blöðum, hringdi í mig Vestfirðingur, sem átt hafði son sinn í skóla á Núpi, og hann sagði mér, að hann hefði reikninga frá skólanum um kostnaðinn þessi tvö ár, sem hér er um að ræða, og hann kannaðist ekki við þær tölur, sem eru í þessari skýrslu. Hann sagðist hafa greitt þar yfir 37 þús. kr. Ég vildi greina hæstv. ráðh. frá þessu, ef einhver mistök kynnu að hafa orðið þarna í útreikningum, ef það er rétt, að þarna sé farið örugglega rétt með staðreyndir. Ég veit ekki annað um þetta en það, sem þessi Vestfirðingur sagði mér frá. En undir hitt vil ég taka, að þessi munur, sem þarna kemur fram, er tvímælalaust óeðlilegur, og hér er um að ræða býsna stórt mál fyrir fólk, sem á í miklum vandræðum með að kosta börn sin í skóla, og verður að gera kröfur til þess, að öllum þessum kostnaði sé haldið jafnhófsamlegum og hægt er.