02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (4447)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þessi fsp. var lögð fram í nóvembermánuði, og gerði ég mér þá vonir um að fá svar við henni eftir 1–2 vikur, því að ég hafði áhuga á að fá vitneskju um áform hæstv. ríkisstj., áður en fjárlög yrðu afgreidd. Því miður hefur það nú verið svo, að þessi fsp. hefur dregizt fram yfir þann tíma og við fjárlagaafgreiðslu var enn einu sinni neitað óskum skólastjórnarinnar um tilteknar fjárveitingar til byggingarframkvæmda við skólann.

Ég þarf ekki að rifja upp að þessu sinni sögu byggingarmáls Kennaraskólans á undanförnum árum. Það er mjög ömurleg saga, — ja, hneykslissaga vildi ég segja, þar sem aðbúnaður að nemendum hefur verið ákaflega lélegur, bæði að nemendum og kennurum raunar, og það hefur lengi verið ljóst, að við svo búið mætti ekki standa. Þess vegna held ég, að það sé fullkomlega tímabært að reyna að fá um það skýr svör frá hæstv. ríkisstj., hvað hún hugsi sér að gera í þessum málum, hvenær hún ráðgeri, að farið verði að vinna af kappi að því að fullgera Kennaraskóla Íslands, þannig að hann geti rækt þau verkefni, sem honum er ætlað að rækja.