02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í D-deild Alþingistíðinda. (4449)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa grg. um byggingarsögu Kennaraskólans. Það var nú heldur ömurleg saga, ef menn hafa tekið eftir dagsetningum í henni, því að hún hefst á árinu 1944. Þá er skipuð fyrsta byggingarnefndin og meira að segja að húsnæði, sem engan veginn er fullgert enn þann dag í dag.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, var lokið við áfanga Kennaraskólans um haustið 1962, eða hann var réttara sagt tekinn í notkun þá, þó að honum væri engan veginn lokið, þessum áfanga. Og hæstv. ráðh. sagði, að sá áfangi hefði átt að duga skólanum um alllangt skeið. Þetta er algerlega rangt. Í því húsnæði, sem þá var byggt, eru átta almennar kennslustofur og ein sérkennslustofa, sem sé níu kennslustofur í allt. Og það vissu allir þá, að þessi áfangi mundi alls ekki duga, jafnvel þótt aðeins væri um að ræða eðlilega aðsókn að þessum skóla, enda stóð þá til, að haldið yrði áfram með þessa byggingu og hún yrði fullgerð. Á því hefur engin skýring veríð gefin, hvers vegna þetta var ekki gert. En það er algerlega rangt hjá hæstv. ráðh., að menn hafi talið, að þessi bygging mundi verða nægileg. Allir vissu, að hún yrði það ekki.

Hæstv. ráðh. rakti hina miklu aðsókn, sem varð að þessum skóla á árunum þar á eftir, og vissulega er það rétt, að aðsókn að þessum skóla varð miklu meiri en sem svaraði kennaraþörf á Íslandi. Þar var um að ræða sprengiþróun, sem stafaði af því, að menntakerfið á Íslandi var ekki orðið í samræmi við þarfir þjóðfélagsins og óskir ungs fólks. Í sambandi við Kennaraskólann opnuðust möguleikar fyrir ungt fólk að komast út úr blindgötum, sem það lenti í annars staðar á námsbrautinni, og einmitt þess vegna jókst aðsókn að þessum skóla svona feiknalega. Þetta var dæmi um ófullnægjandi ástand í menntamálum, sönnunargagn um það. Þarna var, eins og ég sagði áðan, um sprengiþróun að ræða, og hún hefði átt að vera hæstv. ráðh. mjög mikið umhugsunarefni.

Hæstv. ráðh. tengdi þetta mál nú að lokum við breytingarnar á fyrirkomulagi Kennaraskólans, sem frv. var lagt fram um hér á þingi í gær, þ. e. að Kennaraskólanum yrði breytt í Kennaraháskóla Íslands. Vissulega er það rétt, að þar er um að ræða mjög verulega breytingu á fyrirkomulagi þessa skóla, og skal ég ekki ræða það hér að þessu sinni. Það gefast síðar tækifæri til þess. Hins vegar hefur lengi verið vitað um þessa breytingu. Sú nefnd, sem samdi frv., komst að þeirri niðurstöðu fyrir hellu ári, að það bæri að breyta skólanum á þennan hátt. Og hún fór fram á það við hæstv. ríkisstj., að þetta yrði tekið í lög á síðasta þingi, þannig að unnt yrði að hefja þetta fyrirkomulag í skólanum s. l. haust. Ef þessi breyting á að koma til framkvæmda á eðlilegan hátt, þá er alger forsenda fyrir því, að þarna sé um að ræða húsnæði, sem hægt verður að nota. En með þeim drætti, sem orðið hefur á byggingarframkvæmdum, þá er alveg augljóst mál, að þarna verða mikil húsnæðisvandamál á einhverju tilteknu tímabili, jafnvel þó að ráðizt verði af fullum krafti í byggingarframkvæmdir á næsta sumri, eins og hæstv. ráðh. lofar. Þær framkvæmdir taka svo langan tíma, að augljóst er, að það verður mjög erfitt að framkvæma þessa nýju löggjöf við þá húsnæðisaðstöðu, sem þarna er. Þetta hefur hæstv. ráðh. vitað allan tímann. Ég ræddi um þetta við skólastjóra Kennaraskólans og spurði hann að því, hvort ekki væri hægt að ákveða áframhald á byggingarframkvæmdum vegna þessara fyrirhuguðu breytinga. Hann sagðist telja, að það væri fráleitt með öllu.

Í hinu nýja frv. er gert ráð fyrir því, að eðlilegur fjöldi í skólanum núna í upphafi verði 21 bekkjardeild. Það þarf sem sé 21 kennslustofu, ef aðeins á að verða einsett í skólann, eins og sjálfsagt er. En þær eru, eins og ég sagði áðan, níu. Skólastjóri Kennaraskólans reyndi að fá að hefja þessar framkvæmdir fyrr en hæstv. ráðh. hefur heimilað honum. Hann reyndi allt árið í fyrra að fá að nota fjárveitingu, sem var á fjárlögum ársins 1970, til þess að láta teikna viðbót við skólahúsið, en hæstv. ráðh. bannaði honum að láta teikna alveg fram undir árslok á síðasta ári. Skólastjóri Kennaraskólans sótti til Alþ. um 20 millj. kr. til byggingarframkvæmda, og hann sagði mér, að hann teldi, að slík fjárveiting mundi koma að fullum notum þegar í stað. Fjvn. fékk þessa umsókn frá skólanum ásamt bréfi frá hæstv. menntmrh., þar sem menntmrh. mælir með því, að á þessa ósk verði fallizt. Fjvn. gerði það ekki. En ég tók þessa till. upp hér á þingi. Ég flutti þessa till., sem hæstv. menntmrh. hafði mælt með, að tekin yrði upp, og ég óskaði eftir nafnakalli, og hæstv. ráðh. sagði nei við þeirri till., sem hann hafði áður mælt með. Vinnubrögð af þessu tagi eru náttúrlega fyrir neðan allar hellur, og því miður eru þau til marks um skipulagsleysið og sýndarmennskuna, sem einkennir allt of mikið framkvæmdir okkar í skólamálum og hefur valdið óhemjulegu tjóni á mörgum sviðum og Kennaraskólinn einmitt er mjög glöggt dæmi um. Vissulega þýðir ekki að vera að sakast allt of mikið um orðna hluti, og þess er að vænta, að sá þrýstingur, sem lagður hefur verið á þetta mál, bæði hér á þingi og utan þings og m. a. hjá nemendum skólans og kennurum í landinu, verði til þess, að nú verði ráðizt í framkvæmdir af fullum krafti á næsta sumri, eins og hæstv. ráðh. talaði um hér áðan.