07.12.1970
Efri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, var gerð mjög veigamikil breyting á tollskránni snemma á þessu ári vegna aðildar Íslands að fríverzlunarbandalaginu. Það hefur komið í ljós síðan, sem raunar mátti gera ráð fyrir, að ýmsum fleiri liðum þyrfti að breyta vegna aðildar að bandalaginu, þar sem bæði voru nokkur vafaatriði, sem þegar var vitað um og þurfti nánar að ræða við EFTA-ráðið í Genf, og enn fremur var vitað um, að gera þyrfti nokkrar breytingar vegna ýmissa vörutegunda, en ætlunin var að leysa þetta með öðrum hætti, eins og vikið er að í grg., og skal ég taka það fram, að það, sem þar er við átt, er, að það hefði verið hugsanlegt að leysa með þeim hætti að leggja á innlent tollvörugjald til þess að jafna þar metin og ná sama tilgangi. Það þótti hins vegar við nánari athugun ekki fært ekki sízt vegna þess, að þó að það hefði verið gert vegna tveggja vörutegunda, en það var ætlunin að leysa þetta með þeim hætti, þá voru svo mörg önnur atriði, sem þurfti að taka upp til endurskoðunar og athugunar, að réttast þótti að flytja breytingar á tollskránni, þó að ég skuli játa það, að það er alltaf með nokkrum ugg, sem maður leggur upp með slíkt, vegna þess að það koma þá mörg önnur atriði til sögunnar.

En ég vil taka alveg sérstaklega fram, til þess að það valdi engum misskilningi, að með þessu frv. er ekki ætlunin að hefja neina allsherjarendurskrá tollskrárinnar, og ég legg á það ríka áherzlu, að ekki verði gerðar frekari breytingar á tollskránni en þær, sem hér er um að ræða og ef einhverjar hliðstæðar breytingar koma fram við meðferð málsins hér á Alþ., sem eru sama eðlis, þ. e. sem mundu ella valda misræmi vegna breytinganna, sem leiða af EFTA-tollbreytingunum, ef ekki yrðu hliðstæðar breytingar gerðar. Það kann auðvitað alltaf að vera, að einhver einstök atriði komi þannig upp.

En þó að hér sé að vísu um allmörg tollskrárnúmer að ræða, þá eru þetta ekki veigamiklar breytingar á tollskránni. Þó er gert ráð fyrir, að ef færi yfir til EFTA-landa allur sá innflutningur, sem hér um ræðir, þá geti það numið nokkrum fjárhæðum eða allt að 26 millj. kr. miðað við innflutning 1969 og kannski eitthvað meira miðað við innflutning nú, ef allur innflutningurinn færðist yfir til EFTA-landa. En breytingin verður ekki nema að því leyti til, sem það færist yfir til EFTA-landa. Það, sem hér er langveigamesta breytingin, varðar rafmagnseldavélar, tvöfalt gler og ýmis lýsingartæki, sem gert er ráð fyrir að lækka toll á, þannig að fullunnu vörurnar lækki samkv. sömu reglu og notuð var við tollabreytinguna fyrr á þessu ári, þ. e. að fullunnu vörurnar lækki um 30%, en hráefni í umræddar vörur lækki um 50%. Nokkrar aðrar smábreytingar eru gerðar, sem leiða af eðli málsins og eru til samræmingar, en hafa ekki neina verulega þýðingu. Það er t. d. lækkun á tolli á plastplötum; tollur af þeim fer niður í 15%. Þær eru notaðar í alveg sama tilgangi og bárujárnsplötur, en ekki hafði verið athugað að gera breytingar á þessum lið. Nokkrir aðrir liðir, sem nefndir eru í grg., eru einnig lækkaðir.

Einn liður er sérstaklega lækkaður vegna GATT-tollalækkana, sem áður hafa verið framkvæmdar. Það voru tollabreytingar á skrifstofuvélum, sem annars mundi kannski ekki vera mönnum sérstaklega skiljanlegt, að væru nauðsynlegar, en það er lokaþátturinn í breytingum þeim, sem við gengumst undir með aðild okkar að GATT.

Heimildarákvæði, sem hér eru sett inn, eru að meginhluta til tengd þeim breytingum, sem ég gat um áðan, þ. e. breytingu á t. d. eldavéla- og rafmagnsvélatollunum. Það er nauðsynlegt að taka inn heimildir til þess að endurgreiða tollmismun af efnivörum, svo sem gert er í tollskránni, þegar álíka stendur á. Það er jafnframt tekin inn heimild, sem ætluð er til hægðarauka, þannig að það megi sameina í einn tollflokk smásendingar, sem eru innan við 10 þús. kr. að verðmæti. Þá er gert ráð fyrir að endurgreiða efni til vatnsúðunartækja í kartöflugörðum og tæki til vökvunar í gróðurhúsum, en þetta er samræmingaratriði, því að vatnsúðunarkerfið sjálft í kartöflugörðunum er nú í 10% tolli. Varðandi þá heimild, sem lagt er til að fella niður í 5. tölul. heimildargreinarinnar, þá er þar aðeins um að ræða heimildir, sem samþykktar voru í tollskrárfrv. í vor, um endurgreiðslur og nokkur önnur atriði, en allt var það tímabundið og á þar af leiðandi ekki lengur heima í tollskránni.

Þá er bráðabirgðaákvæði, sem hér er tekið upp, þess eðlis, að verðlagsnefnd sé heimilt — og er það gert með hliðsjón af verðstöðvunarlögunum — ef ástæða þykir til og ef um verulegar tollabreytingar er að ræða, að endurskoða álagningu, þannig að hún megi áfram vera hin sama, þ. e. óbreytt að krónutölu þrátt fyrir tollabreytinguna.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta frv. Það er gert ráð fyrir því, að það taki gildi nú 1. jan. Því hefur seinkað meira en gert hafði verið ráð fyrir, þegar gengið var frá þessu ákvæði. Að vísu hefði það verið mjög æskilegt, en mér hugkvæmdist ekki að ætlast til þess, að hv. þd. afgreiddi það með þeim hraða. Ég mundi hins vegar vilja mæla með því, að þd. kynnti sér hjá tolladeild fjmrn., hvernig þetta frv. er byggt upp, og endurtaka það, sem ég sagði í upphafi míns máls, að með þessu frv. er ekki ætlunin að endurvekja hugleiðingar um tollabreytingar almennt, heldur er hér um að ræða óhjákvæmileg atriði, sem leiða af aðild okkar að EFTA, og nokkrar eftirhreytur í því sambandi, sem annaðhvort verður ekki beinlínis komizt hjá vegna aðildarinnar eða nauðsynlegt og eðlilegt þykir að gera til samræmingar við breytingar, sem þegar hafa verið gerðar.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.