15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (4457)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessar fsp. eru nú í allmörgum liðum, en ég skal taka liðina fyrir eins og þeir eru fram bornir á þskj. 213. Aðeins vil ég í upphafi minna á, að lögin um húsnæðismálastjórn og þar með kaflinn um verkamannabústaðina voru samþ. fyrir aðeins hálfu ári síðan og krefjast allmikils undirbúnings, svo að það er ekki að undra, þó að ýmislegt skorti enn á, að lögin séu komin í fulla framkvæmd. Fyrsta spurningin er svo hljóðandi:

„Hve margar sveitarstjórnir og hverjar hafa tilkynnt félmrn. um áform sín um byggingu verkamannabústaða á árinu 1971?“

Sveitarstjórnir eftirtalinna 13 sveitarfélaga hafa tilkynnt félmrn., að þær hafi ákveðið að kanna möguleika á byggingu verkamannabústaða samkv. lögum nr. 30 12. maí 1970: Akranes, Súðavíkurhreppur, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar, Kópavogur, Keflavík, Hafnarfjörður, Búðahreppur, Höfðahreppur og Hólshreppur.

Önnur spurningin er:

„Í hvaða sveitarfélögum. — og hverjum — hefur félmrh. þegar skipað stjórn verkamannabústaða skv. 15. gr. laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins?“

Félmrh. hefur nú þegar skipað stjórn verkamannabústaða í eftirtöldum þremur sveitarfélögum: Sauðárkrókskaupstað, Siglufjarðarkaupstað og Neskaupstað. Þriðja spurningin er:

„Frá hvaða sveitarfélögum hefur rn. þegar borizt rökstudd grg. um þörf fyrir byggingu verkamannabústaða skv. 16. gr. laganna?“

Samkv. 16.–19. gr. laganna nr. 30 1970 er ekki gert ráð fyrir, að rn. séu sendar rökstuddar grg. um þörf fyrir byggingu verkamannabústaða. Slíkar grg. skal hins vegar senda húsnæðismálastjórn. Húsnæðismálastjórn hefur aðeins móttekið eina slíka grg., og sú grg. er frá Sauðárkrókskaupstað.

Fjórða spurning:

„Hvaða sveitarstjórnir hafa þegar lokið byggingaráætlun skv. 19. gr:?“

Aðeins ein sveitarstjórn hefur lokið byggingaáætlun, en það er bæjarstjórnin á Sauðárkróki.

Fimmta spurning:

„Hve margar byggingaáætlanir hafa þegar hlotið staðfestingu sveitarstjórna og húsnæðismálastjórnar, svo að byggingarframkvæmdir geti hafizt, sbr. 20. gr.?“ Aðeins byggingaáætlunin á Sauðárkróki.

Í sjötta lagi er spurt:

„Hvaða sveitarfélög hafa þegar samþ. að hefja byggingu verkamannabústaða, og hvaða fjárupphæð hafa þau ákveðið á íbúa, sbr. ákvæði 20. gr. um lágmarks- og hámarksframlög?“

Sauðárkrókskaupstaður er eina sveitarfélagið, sem hefur samþykkt að hefja byggingu verkamannabústaða. Framlag kaupstaðarins hefur verið ákveðið 400 kr. á íbúa.

Í sjöunda lagi er spurt:

„Hvaða sveitarfélög hafa þegar greitt framlög sín til Byggingarsjóðs verkamanna árið 1970, og hve mikið fé er það samanlagt?“

Ekkert sveitarfélag hefur enn greitt framlag til Byggingarsjóðs verkamanna samkv. lögum nr. 30 12. maí 1970. Þessa árs framlag Sauðárkrókskaupstaðar til sjóðsins greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga af framlagi þess sjóðs til kaupstaðarins fyrir 31. des. 1970, svo sem fyrir er mælt í 20. gr. laganna.

Í áttunda lagi er spurt:

„Hve margar íbúðir verkamannabústaða verða byggðar á árinu 1971 samkv. þeim tilkynningum, sem félmrn. hafa borizt?“

Kunnugt er um 11 íbúðir á árinu 1971. Í níunda lagi er spurt:

„Hve mörg lán hafa þegar verið veitt samkv. ákvæðum 22. gr. laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins?“ Engin lán hafa enn verið veitt úr Byggingarsjóði verkamanna samkv. lögum nr. 30 1970. Hins vegar hefur Sauðárkrókskaupstað verið veitt framkvæmdalán úr Byggingarsjóði ríkisins til byggingarframkvæmdanna, sbr. 2. mgr. a-liðar 8. gr. laganna. Lán þetta verður endurgreitt Byggingarsjóði ríkisins, þegar lánveitingar hefjast úr Byggingarsjóði verkamanna samkv. lögunum.

Eins og ég gat um í upphafi, eru lögin aðeins hálfs árs gömul og krefjast mikils undirbúnings, og þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að þetta sé ekki komið langt á veg. En eins og ég gat um í svarinu við fyrstu spurningunni, eru þegar 13 sveitarfélög, sem hafa tilkynnt, að þau hafi ákveðið að kanna möguleikana, og eru, eftir því sem ég veit bezt, flest og kannske öll á góðum vegi með þann undirbúning, sem nauðsynlegur er til þess að koma þessu máli á framfæri. Og vænti ég, að þetta sé fullnægjandi svar við fsp. hv. þm.