15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (4458)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. hans svör, sem voru undandráttarlaus og afdráttarlaus, eins og efni stóðu til.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að lögin eru aðeins hálfs árs gömul, því að síðan þessi lagasetning fékk staðfestingu á Alþ. er ekki liðið nema hálft ár. Ég verð þó að segja það, að ekki hafa sveitarfélögin brugðizt skjótt og hart við til þess að framkvæma lögin, því að sýnt er, að ef enginn undirbúningur af þeirra hendi er nú fullnaður og kláraður, þá verður komið alllangt fram á árið 1971, þegar þau verða tilbúin að öllu leyti til þess að nota okkar skamma framkvæmdatíma. Ég er því afar hræddur um það, að eins og nú horfir, hilli lítið undir byggingu verkamannabústaða á árinu 1971, því miður. Færi betur, að það væri af þeirri ástæðu, að hvergi væri þörf á slíkum byggingum, húsnæðismálaástandið væri svo gott, að þess þyrfti ekki með. En það er mér og hv. þm. fullkunnugt um, að víða væri full þörf á því að nota kaflann um byggingu verkamannabústaða og hafa byggingar í gangi á komandi ári.

Það eru ein 13 sveitarfélög, sem hafa tilkynnt félmrn. um áform sín um byggingu verkamannabústaða, og aðeins þrjú sveitarfélög, sem þegar hafa skipað stjórn verkamannabústaða. Það hefði þó átt að vera hægt að koma því í verk á sex mánuðum. Þetta er ekki sök félmrn., engan veginn. En þetta sýnir, að sveitarstjórnirnar bregðast ekki vel við þessu máli.

Ég var afar hræddur um það á s. l. vetri, þegar við vorum að samþykkja hina nýju húsnæðismálalöggjöf, að það væri háskalegt, væri misráðið að fella niður hlutverk byggingarfélaga verkamanna úti um landið. Ég taldi þeim málum betur borgið á félagslegum grundvelli fólksins sjálfs heldur en sveitarstjórnarmannanna, sem jafnframt ættu að taka ákvarðanir um fjárframlögin til byggingarframkvæmdanna. Og ég er afar hræddur um, að það eigi eftir að sýna sig, að þetta var ekki að öllu leyti vel ráðið. Ég held, að það væri ástæða til þess að leyfa byggingarfélögunum að starfa áfram, a. m. k. þangað til hin nýja löggjöf er komin til framkvæmda. Nú skulu byggingarfélög verkamanna hætta störfum, þegar þau hafa lokið þeim byggingarframkvæmdum, sem þau höfðu hafið. En á félagaskrá byggingarfélaganna eru tugir, ef ekki hundruð, sjálfsagt hundruð manna, sem hafa vænzt þess að fá byggt yfir sig á vegum síns byggingarfétags, en núna er byggingarfélagið leyst upp, áður en að þessum mönnum kemur, og þeir verða nú að eiga sitt undir því, hvaða ákvarðanir sveitarstjórnin tekur, eftir að félagið hefur verið lagt niður.

Að fengnum þessum svörum, að það sé ein og ein sveitarstjórn, sem hefur komið í verk mörgum framkvæmdaatriðum, sem nauðsynleg eru áður en til lánveitingar getur komið, eitt og eitt sveitarfélag eða ein og ein sveitarstjórn, sem er þannig á vegi stödd, en allar hinar eiga sitt ógert, sem þarf til að byggingarframkvæmdir geti hafizt, þá er ég nokkurn veginn sannfærður um, að það væri rétt að breyta lögunum nú til bráðabirgða og heimila byggingarfélögunum að starfa, þangað til sveitarstjórnirnar hafa tekið við sér, þannig að lögin verði framkvæmd.

Þetta eru engan veginn ásakanir í garð hæstv. félmrh. Hann bara skýrði frá, hvernig þessi mál stæðu, og hans hlutverk gat ekki annað verið á þessari stundu, en mér sýnist allbáglega horfa um, að það verði mikið um framkvæmdir við byggingu verkamannabústaða á því herrans ári 1971, og uggir mig þó, að það kunni eins að fara á árinu 1972, að ekki verði öll sveitarfélög búin að koma málunum þá á framkvæmdastig, því miður.