07.12.1970
Efri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

161. mál, tollskrá o.fl.

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð í sambandi við það frv., sem hér er til umr. um breyt. á l. um tollskrá. Eins og hæstv. fjmrh. raunar rakti, gerðist það í byrjun þessa árs vegna þeirrar ákvörðunar meiri hl. Alþ., að Ísland skyldi frá 1. marz s. l. vera aðili að EFTA, að lagðar voru fram mjög margar till. til breytinga á tollskránni. Samkv. EFTA-samningnum áttu verndartollar á vörum frá EFTA-löndunum að lækka strax um 30%. Sú lækkun á að standa í stað næstu fjögur árin, en síðan eiga tollarnir að lækka jafnt árlega á næstu 6 árum og verða algerlega úr sögunni, þegar 10 ár verða liðin frá inngöngu Íslands í EFTA. Með l. frá því í fyrra var jafnframt gerð nokkur lækkun á tollum á efni og vélum til iðnaðarins til þess að bæta iðnaðinum að hluta lækkun verndartollanna. Eins og hv. þm. muna, var það ætlun ríkisstj. að afgreiða umrætt frv. á örfáum dögum fyrir jólin í fyrra. Stjórnarandstaðan mótmælti því þá strax, að svo umfangsmikið og flókið mál væri látið sæta jafnófullkominni og óþinglegri meðferð. Í fyrstu vildi hæstv. ríkisstj. þó ekki láta af fyrirætlan sinni, og það var ekki fyrr en eftir talsvert þóf, sem á það var fallizt að fresta afgreiðslu málsins fram yfir áramótin. Í því tómi, sem þannig gafst til að íhuga málið, voru bæði tollskrárnefnd og fjhn. beggja d. starfandi, enda barst fljótlega mikill hluti óska og ábendinga frá einstaklingum og félagssamtökum um breytingar á frv. Fjöldamargar af þessum ábendingum voru teknar til greina, og áður en meðferð málsins lauk hér á hv. Alþ., varð niðurstaðan sú, að ég held, að um 200 breytingar voru gerðar á frv. samkv. till. stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. sjálfrar, sem þó aðeins fjórum vikum fyrr virtust albúnir að samþykkja frv., eins og það lá þá fyrir.

Langflestar af þessum till. stefndu að því að bæta aðstöðu iðnaðarins, og þær tollalækkanir, sem af þeim leiddu, námu mörgum milljónatugum. Ég hef ekki upplýsingar um það nákvæmlega, hvað ráðgert var, að þær mundu nema, en ég hygg, að hér sé ekki ofmælt, að það hafi verið þó nokkrir milljónatugir — a. m. k. fjórir. Þrátt fyrir þessa ítarlegu málsmeðferð, sem frv, fékk þó að lokum í byrjun árs 1970, er þó enn komið fram frv. til breytinga á tollskránni, og vissulega getur það verið fullkomlega eðlilegt, að tollskrána þurfi að endurskoða í ljósi þeirrar reynslu, sem fæst af EFTA-aðildinni í framkvæmd. Efni þessa frv., eins og hæstv. fjmrh. hefur raunar gert grein fyrir, er mjög í anda þeirra breytinga, sem gerðar voru með l. nr. 1 frá 1970 á tollheimtunni, en meginstefnan samkv. því frv. var sú, að verndartollar lækkuðu um 30%, tollar af hráefnum til iðnaðarins voru taldir lækka um 50% og tollar al vélum til iðnaðarins úr 25% í 7%. Það ber þó að hafa í huga, að lækkun hráefnistollanna er ekki jöfn á öllum vörum. Í sumum tilfellum er um meira en 50% lækkun að ræða, en í öðrum minni lækkun.

Þegar málið var til meðferðar hér á hv. Alþ. í byrjun þessa árs, bentu fulltrúar Framsfl. í fjhn. d. á það, að jafnhliða og tollar væru afnumdir á vélum til iðnaðarins bæri einnig að fella niður tolla á hliðstæðum vélum og tækjum til sjávarútvegs og landbúnaðar. Slíkir tollar voru 10% á vélum til landbúnaðarins, áður en breytingin var gerð, en lækkuðu í 7%. Sú lækkun nægir ekki til að vega á móti 3½% hækkun söluskatts, og því leiðir af þeim breytingum, sem gerðar voru við EFTA-aðild, hækkun á þessum vörum. Tollar af vélum og tækjum til sjávarútvegsins eru og voru 4%, og á það leggst svo söluskattur, þannig að þessar vörur hækka í verði við breytingar, sem af EFTA-aðildinni leiða. Því var það, að á síðasta þingi fluttu fulltrúar Framsfl. till. um afnám tolla á nokkrum vélum og tækjum, sem iðnaðurinn, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn nota. Og því var jafnframt lýst, að það væri vandasamt verk og ekki á færi annarra en sérfræðinga að gera till. um allar lækkanir á tollum á hráefnum til iðnaðar, og þess vegna var jafnframt flutt till. um svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða með leyfi forseta:

„Tollskrárnefnd skal í samráði við Félag ísl. iðnrekenda, Samband ísl. samvinnufélaga, Landssamband iðnaðarmanna, Verzlunarráð Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna endurskoða öll atriði tollskrárinnar, sem snerta hráefni og hjálparefni til iðnaðar, með það fyrir augum, að tollar á þessum efnum verði felldir niður. Till. n. um þetta efni skulu lagðar fyrir næsta þing.“

Þessar till. voru að sjálfsögðu ekki samþykktar. Og frv. á þskj. 205 kemur nú fram eftir um það bil árs reynslu af tollunum, eins og þeir voru ákveðnir með l. 1970. Það kemur ekki nema að mjög óverulegu leyti til móts við þær kröfur, sem framsóknarmenn settu fram í fyrra og ég var hér að lýsa. Ég áskil mér þess vegna allan rétt til þess að flytja svipaðar brtt. nú og þær, sem ég nefndi áðan, við meðferð málsins hér á Alþ. Ég hef ekki haft nema stuttan tíma til að lesa þetta frv., en við fljótan yfirlestur virðist mér þess vera gætt, að samræmi sé haft á milli tollalækkana á fullunninni vöru annars vegar og hráefnis til framleiðslu sams konar varnings hér innanlands hins vegar, en ég endurtek það, og ég undirstrika það, að við nánari athugun kann þó annað að koma í ljós.

Þá undirstrika ég það jafnframt, sem hæstv. fjmrh. gerði hér að umtalsefni í sinni ræðu, að hvorki með l. nr. 1 frá 1970 né með þessu frv. er nokkur allsherjarendurskoðun á tollalöggjöfinni framkvæmd. Hér er eingöngu eða svo til eingöngu fjallað um breytingar, sem leiða af EFTA-aðild. Önnur atriði tollskrárinnar hafa yfirleitt ekki komið til athugunar, þótt þar sé víða orðin þörf mikillar breytingar. Ég álít, að slík heildarathugun sé aðkallandi, en ég viðurkenni, að hún kemur tæpast til greina nema sem liður í allsherjarendurskoðun á tekjustofnum ríkisins. Það er mín skoðun, að sú endurskoðun þurfi að fara fram og það verði löngum erfitt að komast hjá því að hafa misjafna tolla á hinum ýmsu tegundum vöru og nota þá aðferð til þess að draga úr verðhækkunum á nauðsynjum með því að skattleggja þá hluti, sem almenningur getur frekar verið án, og það verði um langa hríð a. m. k. að nota verðtollinn til tekjuöflunar og til að skapa verðmismun, vegna þess að söluskatturinn er eins og hann er; hann leggst jafnt á alla hluti. En mat á því, hvað telst nauðsyn almennings hverju sinni og hvað minni nauðsyn, er breytingum háð, og það þarf að skoða það hverju sinni. Það má vel vera, að ég sé kominn hér eitthvað út fyrir umræðuefnið, og ég skal ekki ræða þetta atriði frekar að sinni. En þrátt fyrir það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að hann ætlaðist ekki til, að nein önnur breyting yrði gerð á tollskrá nú en sú, sem leiðir af EFTA-aðildinni, og einhverjar hliðstæðar breytingar, sem menn kynnu að koma auga á við meðferð málsins, þá áskil ég mér a. m. k. að svo stöddu allan rétt til þess að flytja þær brtt. við tollskrána, sem mér kann við athugun að sýnast mest aðkallandi, þó að þær snerti ekki beint aðildina að EFTA.

Ég ætla svo að leyfa mér að fara fram á nokkrar frekari útskýringar á ákvæði til bráðabirgða, sem hæstv. fjmrh. vék að og taldi, að væri sett með hliðsjón af verðstöðvunarlögum. En þetta bráðabirgðaákvæði er þannig, að verðlagsnefnd er heimilað að hækka hundraðshluta leyfðrar álagningar á vöru, sem lækkar í verði vegna fyrirhugaðra tollabreytinga, þannig að álagningin verði hin sama í krónutölu eftir breytinguna og hún er nú, þ. e. fyrir breytinguna. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta ákvæði væri sett með hliðsjón af l. um verðstöðvun. Ég kem þessu ekki alveg heim og saman, vegna þess að ég man ekki betur en það ákvæði í verðstöðvunarlögunum, þar sem vikið er að álagningu, væri þannig, að hundraðshluti í heildsölu og smásölu mætti ekki hækka frá því, sem hann var 1. nóv. 1970. En þetta ákvæði hef ég skilið svo, að þrátt fyrir verðstöðvun skyldi verðhækkun erlendis á vörum koma til álagningar — verzluninni til góða. Og ég skildi það svo við meðferð verðstöðvunarlaganna hér, að það væri talið eðlilegt að halda því, meðan við búum við álagningu, sem miðast við hundraðshluta innfluttrar vöru. Vissulega fylgja því margir gallar, sem hér hafa verið ræddir og ég hef m. a. oft gert hér að umtalsefni, þannig að verzlunin fær þeim mun meira í sinn hlut, sem hún gerir lakari innkaup, þ. e. miðað við það, að varan seljist. En engu að síður er þetta þó regla, og a. m. k. sýnist mér, að það megi með nokkrum rétti halda því fram, að það beri að hafa eina og sömu regluna í þessum hlutum og það sé erfitt í framkvæmd og í eftirliti að nota tvær eða fleiri reglur.

Ég man ekki betur en hér kæmi brtt. við meðferð verðstöðvunarlaganna, sem gekk í þá átt — a. m. k. var henni lýst, og ég hygg, að hún hafi verið flutt hér — að yrði verðhækkun á erlendri vöru, skyldi þó álagningin ekki hækka umfram það, sem hún er í krónutölu við upphaf verðstöðvunartímabils. Og ég tók það svo, að rökstuðningurinn gegn þessari till. væri einfaldlega sá, að ein og sama reglan yrði látin gilda. En nú sé ég, að það er ekki gert, vegna þess að hér er ákveðið, að þó að verð vöru lækki, þá á álagning ekki að vera hlutfallsleg, heldur á hún að vera sú sama í krónutölu eftir lækkunina og hún var fyrir. Þetta finnst mér þurfa frekari útskýringa við, og ég óska eftir þeim. Ég óska eftir frekari útskýringum á þessu, hvers vegna það er nú rétt að hafa óbreytta álagningu í krónum, en þegar verðstöðvunarlögin voru sett, var það eina rétta að hafa hana áfram hlutfallslega.

Ég skal svo ekki þreyta dm. með því að ræða þetta mál við 1. umr. meira. Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til fjhn. d. og þar gefist mér og öðrum tækifæri til þess að kanna þessi mál betur, og læt þá máli mínu lokið að sinni, en ég endurtek það, að mig fýsir mjög að fá frekari útskýringar á þessu ákvæði með álagninguna, annaðhvort nú við 1. umr. eða þá við meðferð málsins hjá nefndinni.