02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (4470)

342. mál, endurbætur á flugvöllum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Gerð hefur verið fimm ára áætlun um framkvæmdir á flugvöllum úti á landi, og þar er gert ráð fyrir, að ef fé verður til þess, verði þeir flugvellir, sem hér er spurt um, gerðir 800 metra langir, svo að þeir geti tekið við flestum flugvélum, a. m. k. af minni gerð. En kostnaður við nýjan flugvöll í Stykkishólmi, sem óskað er eftir, að gerður verði, mundi verða um 9.5 millj. kr., á Hellissandi 4 millj. kr. og í Búðardal 1 millj. kr. óskir hafa komið fram um það, að byggðir verði flugvellir fyrir minni flugvélar við Akranes og Borgarnes. Virðist eðlilegt, að flugferðir til þeirra staða verði tengdar flugi til Hellisands, Stykkishólms og Búðardals.

Það er mjög vafasamt, að hægt sé að reka stóra flugvél, eins og Flugfélag Íslands h. f. notar í innanlandsflugi í dag, til þessara staða, án þess að stórfelldur taprekstur verði. Og ástæðan til þess, að ekki hefur enn verið gert meira í flugvöllum á þessum stöðum og teknar upp reglulegar flugsamgöngur frá Reykjavík þangað, er einfaldlega sú, að vegalengdin þangað er styttri en til annarra staða á landinu, þar sem reglulegar flugsamgöngur eru. Þá hefur það og komið fram og þarf kannske ekki að taka sérstaklega tillit til þess, að sérleyfishafar bifreiða, sem hafa daglegar áætlunarferðir til Borgarness, Stykkishólms, Hellissands og í Dali, mundu telja, að það yrði vafasamur rekstrargrundvöllur undir sérleyfisleiðunum, ef mikið væri frá þeim tekið á flugleiðum. En ég segi, að það er kannske vafasamt að láta þetta hafa áhrif á ákvörðun um það, hvort menn flýta sér við að gera góða flugvelli á þessu svæði, en þó gæti það að einhverju leyti verkað þannig. Það er talið vafasamt, að flug á þessum leiðum geti svarað kostnaði, enda þótt það sé þægilegt, að það geti átt sér stað, og eðlilegt, að fólkið á Vesturlandi vilji fá til sín betur gerða flugvelli en það nú hefur. Það má segja, að það sé lítið annað en sjúkraflugvellir, sem þarna er um að ræða. Það eru aðeins örlitlar vélar, sem þarna geta lent, og þess vegna er ástæða til að bæta úr þessu, þegar fé verður fyrir hendi. En það hefur ekki þótt fært að gera ráðstafanir til þess, að byrjað verði á framkvæmdum á árinu 1971 við þessa flugvelli.

Ég tel ástæðu til að rekja hér nokkuð, hvernig því fjármagni verður varið, sem til ráðstöfunar er á árinu 1971. Það hefur verið samþ. í samgrn. að fara eftir till. flugráðs um það, hvernig því fé verði varið, sem er til ráðstöfunar til flugvalla og öryggistækja á þessu ári. Og það hefur verið lögð megináherzla á það undanfarið að kaupa öryggistækin í samráði við flugöryggisþjónustuna og aðra þá, sem bezt þekkja til öryggismála. Má segja, að það sé langt komið að vinna það upp.

Á árinu 1971 verður varið 4.1 millj. kr. til ýmiss konar öryggistækja auk 8 millj. kr., sem er fyrsta greiðsla af nýjum radar, sem óhjákvæmilegt þykir að setja upp á Reykjavíkurflugvelli. Á Akureyri verður varið 4.7 millj. kr. til öryggistækja, í Vestmannaeyjum l.1 millj., á Egilsstöðum 600 þús. kr., á Ísafirði 200 þús., og svo er ýmislegt í sambandi við fjarskiptatæki 600 þús. kr. Þetta eru 11.3 millj. + 8 millj. eða 19.3 millj. kr.

Þá eru það flugvellir úti á landi. Það er í sambandi við flugstöðvar og flugbrautir. Akureyrarflugvöllur 3 millj. 750 þús., Vestmannaeyjaflugvöllur 3 millj. 700 þús., Egilsstaðaflugvöllur 200 þús., Ísafjarðarflugvöllur 900 þús., Hornafjarðarflugvöllur 600 þús., Húsavíkurflugvöllur 425 þús., Fagurhólsmýrarflugvöllur 300 þús., Þórshafnarflugvöllur 100 þús., sjúkraflugvellir 800 þús. og ýmiss konar tæki 625 þús. Þetta eru 11.4 millj. kr. (Gripið fram í.) Nokkuð af þessu er til lýsingar flugvalla líka. En þetta eru 39 millj. kr., sem er til beinna framkvæmda, og auk þess hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða vexti og afborgun af lánum, 27.3 millj., þannig að þetta eru 66.3 millj. kr. En lánin eru aðallega tilkomin vegna öryggistækja, sem keypt hafa verið á undanförnum árum.

Ég tel ástæðu til að minna á það, að þessir flugvellir, sem hér er spurt um, eru í fimm ára áætluninni, og verður unnið að þeim, eftir því sem fé verður veitt til, og í þeirri röð, sem flugmálastjórnin telur eðlilegt, að þeir verði teknir á þessu tímabili.