02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (4472)

342. mál, endurbætur á flugvöllum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þar sem flugvallamál eru á dagskrá, langar mig til þess að spyrja hæstv. samgrh., hvenær hann búist víð, að lýsing komi á Patreksfjarðarflugvöll. Ég minnist þess, að fyrir allmörgum árum, þegar þessi flugvöllur var opnaður, þá var ráðh. svo vinsamlegur, að hann bauð okkur Vestfjarðaþm. með sér vestur á Patreksfjörð, þar sem við fengum góðar móttökur og með veitingum voru haldnar stuttar ræður. Einn ræðumanna var forstjóri Flugfélags Íslands, Örn Johnson, og minntist hann á lýsinguna á flugvellinum, sem vantaði. Og hann nefndi það, að í raun og veru væri flugvöllurinn líkt og fokhelt hús, meðan hana vantaði. Ég man nú ekki, hvað eru mörg ár síðan þetta var, þau eru þó nokkur. Ætli þau séu ekki ein fimm. Það getur verið, að hv. 9. þm. Reykv. muni það nú betur en ég, því að ég held, að hann hafi verið þar. En það er engin lýsing komin á völlinn enn. Nú hefur það komið fyrir, að þurft hefur að grípa til þess að fá flugvél til að sækja sjúklinga í skyndi til Patreksfjarðar, sem hafa þurft að komast mjög fljótt til læknisaðgerðar hér í Reykjavík. Ég minnist þess t. d., að einu sinni veiktist maður skyndilega og mjög atvarlega. Það var hringt til Reykjavíkur og beðið um flugvél að sækja sjúklinginn. Jú, jú, það stóð ekkert á flugvélinni, en það var farið að skyggja, og flugvélin gat ekki komið, af því að það var engin lýsing á flugvellinum. Ég veit að vísu, að það hefur verið reynt að nota einhvers konar lugtir, en þessi flugvél a. m. k. treysti sér ekki til að lenda þarna undir slíkum skilyrðum, og sjúklingurinn var ekki fluttur þennan dag.

Þá man ég það, að við Vestfjarðaþm. fórum á fund samgrh. fyrir nokkrum árum. Ekki man ég nú, hverjir við vorum þar, þó minnir mig, að það værum við Sigurður Bjarnason og Hannibal Valdimarsson. (Gripið fram í: Það er rétt). Er það rétt, já? Þar minntumst við á þetta mál meðal annars, og þá sagði hæstv. ráðh. okkur, að hann mundi beita sér fyrir því, að rafmagnslína yrði lögð frá Patreksfirði yfir fjörðinn á flugvöllinn þá á komandi sumri. Ég skal taka það fram, að hæstv. ráðh. sagði ekki afdráttarlaust, að línan yrði lögð, eins og sumir og jafnvel hans fylgismenn hafa verið að herma upp á hann. Ég man alveg, hvernig hann hagaði orðum sínum þá. Hann sagðist ætla að beita sér fyrir því, að þessi rafmagnslína yrði lögð. En þeir tóku það ýmsir þarna fyrir vestan svo, að hann hefði lofað því, og þetta leiðrétti ég á opinberum fundi þar fyrir vestan, af því að ég mundi þetta nákvæmlega. Af þessu marka ég það, að hæstv. ráðh. vill koma þessu í framkvæmd. Ég efast ekkert um það. En ef þetta yrði gert og rafmagnslínan lögð yfir fjörðinn í Sandodda, þá er búið að létta mjög fyrir áframhaldi þessarar rafmagnslínu í næstu sveit, Barðastrandarhreppinn, og kannske að einhverju leyti í Rauðasandshrepp, en ég skal ekki fullyrða neitt um, hvort það geti orðið, því að þar er mjög strjálbýlt. Ég hef ekki verið með nemar kröfur um rafmagnslínu í þessa sveit mína, af því að ég veit, að það rúmast ekki innan þeirra marka, sem enn eru í gildi um lagningu rafmagnslína í sveitum. Það er miklu meira en 1.5 km þar á milli bæja og því ekki sanngjarnt að vera að gera slíkar kröfur, meðan þær reglur gilda. En ég tel í alla staði, að þetta sé ákaflega aðkallandi, og ég held, eins og ég sagði, að hæstv. ráðh. hafi líka fullan vilja á þessu. En mig langar til þess að spyrja hann núna, hvort hann búist við því, að þessi rafmagnslína geti komið nú á næsta sumri á flugvöllinn.