02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (4473)

342. mál, endurbætur á flugvöllum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Já, við höfum nú fyrr minnzt á ljósin á Patreksfjarðarflugvelli, og það er rétt, að það er ekki komin þar sú lýsing, sem á að koma, og þannig er það nú náttúrlega víðar, því miður. En í þeirri fimm ára áætlun, sem gerð var, og þetta er fyrsta árið, 1971, þá er gert ráð fyrir því, að á árinu 1972 og 1973 verði lokið lýsingu allra flugvalla, sem flogið er reglulega til, og öðrum raunhæfum öryggisráðstöfunum, en á tveimur árum þar á eftir yrði svo lokið við það, sem ekki er eins aðkallandi. Talið er, að það megi ljúka öllum nauðsynlegum framkvæmdum í flugmálunum á þessum árum með svipaðri fjárveitingu og nú er. Yrði fjárveitingin hins vegar aukin, gæti þessi tími stytzt. Það væri vitanlega mjög æskilegt, að fjárveitingin yrði aukin, og þó að við höfum nú 66 millj., þá er það vitanlega, eins og hér var sagt áðan, alls ekki há upphæð, þótt hún sé að vísu há miðað við fjárveitingar til flugmála frá því að byrjað var að gera flugvelli hér á landi og kaupa öryggistæki. Það hefur verið bjargazt við lugtir og ljós frá rafgeymum á flugvellinum á Patreksfirði, og það hefur bjargazt áfallalaust, þótt það sé vitanlega slæmt. Ef þessi sjúklingur, sem hér var nefndur, hefði ekki getað beðið flugs til næsta dags, þá hefði það vitanlega kannske getað skorið úr um það, hvort hann varð aftur hraustur eða sjúkur áfram, og þannig er þetta víðar, því miður, á landinu. Og sjúkravellina þyrfti jafnvel að lýsa upp líka, því að þetta getur komið fyrir hvar sem er á landinu, að það þurfi að senda flugvél í neyðartilfellum til þess að sækja veikan mann. Og sjúkraflugvellirnir mundu verða mun notadrýgri, ef við gætum lýst þá upp, þótt ekki væri með öðrum hætti en nú er gert á Patreksfirði.

Um það, hvort rafmagnslína kemur á næsta sumri yfir á flugvöllinn frá Patreksfirði, get ég ekki sagt um. Ég get hins vegar sagt það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði reyndar, að ég hef hug á því, að það geti tekizt sem fyrst. Þessi lína þarf að koma, en hún er nátengd línunni, sem ætlað er að koma á Barðaströndina og lýsa þá sveit upp, sem liggur tiltölulega vel við að verða raflýst, þegar bitið frá Patreksfirði og yfir á flugvöllinn hefur verið brúað. En þetta kostar talsvert fjármagn. Ég fékk áætlun um það, man ekki nákvæmlega nú, hvað það var mikið, mig minnir talsvert á aðra millj. þá og eitthvað meira nú, og þessi góða meining en ekki loforð strandaði á því, að það var ekki fé fyrir hendi. Það strandaði á því, að það var ekki fé fyrir hendi, og framkvæmdirnar við flugvellina eru yfirleitt gerðar eftir till. flugráðs og þeirra sérfræðinga, sem flugmálastjórnin hefur yfir að ráða. Þannig er verkefnunum raðað. Patreksfjörður hefur ekki enn fengið varanlega lýsingu, ekki af því, að það hafi ekki verið tiltölulega nauðsynlegt, heldur af því, að það hefur ekki enn verið hægt að taka af því fjármagni, sem til skiptanna hefur verið, til þess að láta þetta gerast. Og ég vænti nú, að hv. þm. nægi þetta svar mitt og hann virði mér það til vorkunnar, þótt ég geti ekki lofað því, að línan komi á næsta sumri. En það verður eftir því, hvort rafmagnið verður lagt á Barðaströndina. Ef það væri, þá verður leikurinn miklu léttari.