02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (4480)

345. mál, kal í túnum

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir ítarleg svör. Það er fróðlegt að fá þessi yfirlit um tilraunastarfsemina og annað, sem gert hefur verið í þessu sambandi. Það er hins vegar erfitt fyrir leikmann að meta það, hvort sú tilraunastarfsemi, sem nú er í gangi, sé fullnægjandi, og ég skal ekki neinn dóm á það leggja að svo stöddu. Það þarf vitanlega nánari skoðunar víð. Hins vegar verð ég að segja það, að ég hlýt að gagnrýna, hvað seint hefur verið við brugðið í þessum efnum.

Mér satt að segja hnykkti við, þegar ráðh. byrjaði sín svör með því að nefna árið 1965 sem upphafsár kalsins. Þá eru bændur, a. m. k. á stórum svæðum norðanlands og austan, búnir að búa í mörg ár við alveg gífurlegt kal, fyrir 1965, alveg gífurlegt kal. En það ár, — ég er nú ekki alveg viss um að muna það rétt, en það er væntanlega það ár, sem fundur Stéttarsambands bænda var haldinn austur á Héraði og hæstv. ráðh. og fleiri frammámenn í landbúnaði komu og sáu gjöreyðilegginguna, sem þá var á stórum svæðum á Héraði. Þá var brugðizt við og lagt út í tilraunir, segir ráðh. Það er ekki fyrr en nú, að það hafa verið gerðar stærri aðgerðir í þessu sambandi. Það er ekki fyrr en kalið er komið suður fyrir jökla, sem það er gert, þá er kalnefnd skipuð vísum og ágætum mönnum og hafizt handa fyrir alvöru.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh., og ég hef ekki aðstöðu til að vefengja það, að talið er, að nóg fé sé veitt til kalrannsókna eins og er. Mér þykir vænt um, segi ég, að heyra þetta og vona, að það sé ekki vefengt af þeim, sem að þessum verkum vinna. En það álít ég þó, að þurfi að kanna nánar.

Varðandi kalrannsóknirnar hlýtur það að vera mjög til ámælis fyrir stjórnarvöld, hversu seint var við brugðið, en eins og ég sagði, hef ég ekki ástæðu til að meta það, hvort það, sem nú er verið að gera, sé fullnægjandi.

Það virtist mér koma greinilega fram af svörum hæstv. ráðh. varðandi síðasta lið fsp., að ríkisstj. hefur ekki haft beina forustu um að hamla gegn fóðurskortinum á annan hátt en þann að beita sér fyrir fjáröflun til fóðurkaupanna og svo flutninganna, sem hafa verið styrktir með beinum framlögum. Það hefur ekki enn þá af hálfu stjórnarvalda verið gert stórátak til þess að greiða fyrir endurræktun, til þess að greiða fyrir aukinni grænfóðurrækt né heldur nein átök til þess að styrkja menn til að koma upp bústofni, þeim, sem farið hafa þá leið að skera niður. Og einnig er sú fyrirgreiðsla, sem veitt hefur verið bændum varðandi lausaskuldamálin, algerlega ófullnægjandi, og kemur það vitanlega mjög hart niður á þeim, sem verst hafa orðið úti af þessum sökum. Ég álít líka, að það hefði átt að fara skarpar í það og gera beint átak til þess af hálfu stjórnvalda og í samstarfi við samtök bændanna sjálfra að hefja öfluga rannsóknar- og um leið leiðbeiningastarfsemi um heyverkun í ýmsum myndum. Það er til þrautreynt úrræði, votverkun töðunnar, þó að ekki hafi allir náð tökum á því. Og það er mál, sem þarf að kynna og gefa meiri gaum en verið hefur til þessa.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég verð að segja það að lokum, að ég sakna þess, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa beitt sér fyrir því, að gerð væri tilraun til þess að meta í heild það gífurlega tjón, sem íslenzkur landbúnaður og þar með þjóðin öll hefur beðið af völdum gróðureyðingarinnar í túnum, ekki frá og með árinu 1965, heldur einnig frá árunum upp úr 1960, þegar kalið var óskaplegt í vissum landshlutum, eins og ég áðan vék að.