02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (4481)

345. mál, kal í túnum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. er nú vanur því að vera sanngjarn í sínum málflutningi og flytja mál sitt af röksemi, en nú var eins og út af því ætlaði að bregða, þegar hann var að tala um seinlæti stjórnvaldanna í sambandi við rannsóknir á kalinu og forustuleysi í fóðuröflun og aðgerðum til þess að létta undir með bændum vegna tíðarfarsins, kalsins og grasleysisins.

Hv. þm. sagði, að það hefði nú ekki verið fyrr en kalið kom suður fyrir jökla, að farið hefði verið að gera alvarlegar ráðstafanir til þess að rannsaka það. Sannleikurinn er nú sá, að alvarlegustu kalskemmdirnar byrjuðu 1965 fyrir austan. Ég man vel eftir því, þegar ég kom þarna austur. Stéttarsambandsfundurinn var á Eiðum, og ég hafði aldrei séð svo ljóta sjón eins og kalskellurnar í túnunum á Héraðinu. En það var einmitt þá, sem gerðar voru ráðstafanir strax með því að senda Bjarna Helgason austur, og hann gerði síðan ýmsar tilraunir þarna og fékk fjármuni til þess. En sem betur fór var nú ekki kal á Austurlandi árið eftir, þetta fluttist nokkuð til, og menn voru að vona, að þetta yrði ekki árvisst hjá okkur. Það var það, sem við vorum að vona. En svo, þegar þetta sýnist vera árvisst núna í nokkur ár og þetta kemur alltaf einhvers staðar á hverju ári, þá er farið að skipa fastanefnd til þess að kanna þetta, og ég minnist þess ekki, að ég hafi heyrt það frá stjórn Stéttarsambandsins, Búnaðarfélagsins eða annarri forustu bændasamtakanna, að það hafi verið illa að þessu staðið og seint byrjað, fyrr en hv. 5. þm. Austf. kemur með þetta hér í dag og talar um forustuleysi í ýmsu, sem þetta varðar. Hann segir t. d.: Ég skil ekkert í því, að ríkisstj. skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að rannsaka það tjón, sem af kalinu hefur orðið frá því fyrsta, ekki bara frá 1965, heldur frá því fyrsta. Þetta hefur nú verið gert að nokkru leyti. Sturla Friðriksson hefur reiknað þetta út að verulegu leyti, en það má náttúrlega alltaf segja, að það sé matsatriði, hvernig á að reikna þetta og hver sé hin raunverulega rétta útkoma. Hitt fer ekki á milli mála, að tjónið hefur orðið gífurlega mikið og ríkisvaldið hefur gert mikið til þess að mæta þessu tjóni og gera bændum kleift að halda búum sínum, þráu fyrir grasleysi og vont tíðarfar. Það hefur verið gert og kom fram í ýmsu af því, sem ég las upp hér áðan, og mætti lesa meira af gögnum í því sambandi máli mínu til stuðnings.

Þá segir hv. þm.: Ríkisstj. hefur ekki haft nægilega forustu um fóðuröflun vegna grasleysisins og vegna kalsins að öðru leyti en því að sjá um, að það væri alltaf til nóg af innfluttu fóðurkorni. Ja, það hefur ríkisstj. gert. Hún hefur séð um, að það væri alltaf nóg til af innfluttu fóðurkorni og beitt sér fyrir því, að sérstök fjárhagsleg aðstoð væri veitt til þess, að birgðir gætu verið fyrir hendi vegna hafishættu m. a., og ríkisstj. hefur stuðlað að því með ýmsu móti, að ræktun hefur verið stöðug og mest á síðustu árum, til þess að tryggja gras og fóður þrátt fyrir kal og kalt tíðarfar. Og ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því, að grænfóður hefur verið styrkt og endurræktun hefur verið styrkt, og á síðasta ári var grænfóðurstyrkurinn 7 millj. kr. og reyndar ekkert takmarkað við þá upphæð, vegna þess að hann er veittur eins og jarðastyrkur.

Ég átti ekki von á þessum málflutningi frá hv. 5, þm. Austf., vegna þess að oftast nær hefur hann verið sanngjarn og rökfastur í sínum málflutningi og látið það vera að bera fram rakalausa sleggjudóma. Ég veit ekki betur en ríkisstj. á hverjum tíma hafi tekið til greina till. Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins, þegar um það hefur verið að ræða að létta undir með bændum vegna tíðarfarsins. Ég veit ekki betur en harðærisnefndin hafði verið skipuð og það hafi verið farið algerlega eftir till. hennar með úrbætur í þessum efnum. Tölur þær, sem ég las upp áðan, eru byggðar á till. harðærisnefndar. Og það mun enginn þora að halda því fram, að harðærisnefnd hafi ekki viljað gera hlut bænda eins góðan og unnt var. En tillögum hennar til úrbóta hefur aldrei verið hafnað, heldur hafa þær verið samþykktar í ríkisstj.

Hv. þm. minntist á lausaskuldalánin og sagði, að þau væru alveg ófullnægjandi. Ég veit ekki, hvað þessi lausaskuldalán nema miklum fjárhæðum nú, en í haust, síðast þegar ég spurði að því, þá voru þau 134 millj., og talið var, að eitthvað mundi bætast við eftir það, og víst er það, að þeir bændur, sem ekki komust inn í þessar lánveitingar strax, lögðu mikið upp úr því, að þeir kæmust það seinna, og hafa allir, sem um það hafa sótt, þótt seinna hafi verið, fengið fyrirgreiðslu, ef þeir hafa uppfyllt þær almennu reglur, sem settar voru. Og ég er alveg sannfærður um það, að lausaskuldalánin létta mjög undir með bændum að því leyti, að nú er þetta aðeins ein afborgun og vaxtagreiðsla árlega og vextir og afborgun samanlagt af þessum lánum, sem eru til 20 ára, eru ekki hærri en víxilvextirnir einir eru.

Hv. þm. talar um það, að ríkisstj. hefði þurft að hafa forustu um meiri leiðbeiningastarfsemi á ýmsum sviðum landbúnaðarins. En hvað hefur ríkisstj. gert? Hefur hún ekki fjölgað ráðunautum, bæði hjá búnaðarfélögum, héraðsráðunautum, og sérfræðingum hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins? Hverja aðra forustu getur ríkisstj. haft í þeim málum, leiðbeiningamálum fyrir landbúnaðinn, en að leggja til ráðunauta og sérfræðinga, sem eiga að upplýsa bændur? Ég er alveg sannfærður um það, að þegar hv. stjórnarmaður í Stéttarsambandi bænda athugar þetta, þá gerir hann sér ljóst, að það er heppilegra fyrir hann að halda sig við þann málflutning, sem hann hefur venjulegast hér, en það, sem hann viðhafði hér áðan, hæfir honum miklu verr og gerir þeim málstað, sem hann vill tala fyrir, miklu minna gagn heldur en ef hann notar sína gömlu aðferð.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta. Það liggur fyrir, að ríkisstj. hefur ekki látið á sér standa að koma til móts við bændur og gert allar þær ráðstafanir, sem tiltækar voru, til þess að kuldinn, kalið og grasleysið gerði þeim sem minnst tjón.