02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (4484)

345. mál, kal í túnum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta vissi ég nú, að hv. 5. þm. Austf. hefði gjarnan viljað þakka ýmislegt, en hv. þm. verður vissulega fyrirgefið, þó að hann eyddi ekki tíma sínum í það, ef hann hefði verið eðlilega sanngjarn að öðru leyti. En það er þetta, sem hv. þm. er enn að tala um, að það hafi verið seint við brugðið, og hann er að tala um ægilega mikið kal 1950 og 1951. Það mun rétt vera, að það mun hafa verið kal 1952 og líklega líka 1955. Ég get nú þakkað fyrir það, að til þess var ætlazt, að ég brygði við fljótt eftir 1959, þegar ég tók við þessum málum, að láta rannsaka það, sem ekki var gert, á meðan flokkur hv. þm. var í stjórn. En ég ætla nú ekki að fara að metast um þetta. Ég held, að það sé ekki heldur rétt að ásaka þær ríkisstj., sem voru við völd 1950–1959, um skeytingarleysi í þessum málum, vegna þess að kalið kom þó ekki nema öðru hverju og alltaf voru nokkrar rannsóknir á tilraunastöðvunum og hjá rannsóknarstofnun þeirri, sem landbúnaðurinn hafði. Þetta var alltaf gert að meira eða minna leyti, þótt ekki hafi verið skipulega eða vel að þessum málum unnið fyrr en nú í seinni tíð, eftir að kalið fór að sækja einhverja landsmenn heim árlega. Og ég held, að þegar við ræðum þetta af fullri sanngirni, þá sjáum við, að það hefur verið eðlilega að þessu staðið á allan hátt.

Um það forustuleysi ríkisstj. að beita sér ekki fyrir nýjum heyverkunaraðferðum, vil ég aðeins segja það, að Stéttarsamband bænda gerði till. um það að fá aukafjárstyrk til súgþurrkunar, vegna þess að bændurnir töldu, að það væri meginatriði fyrir þá að hafa súgþurrkun og tryggja sig þannig gegn rosanum. Og það er alveg vitað mál, að þeir bændur, sem hafa súgþurrkun, geta blásið heitu lofti, geta alltaf bjargað sér í rigningunni, og þess vegna er það, að það eru flestir bændur komnir með súgþurrkun og hafa fengið ríflegan styrk frá því opinbera, bæði samkv. jarðræktarlögum og aukastyrk til þess að koma þessu á. Hitt er svo annað mál, að það má þurrka hey með ýmsu móti. Það má gera það með aðferð Benedikts frá Hofteigi, það má gera það með aðferð Einars Guðjónssonar, það má gera það með aðferð Sigurbjörns Árnasonar og það má gera það með aðferð Ágústs Jónssonar. En allar þessar aðferðir kosta nýja fjárfestingu hjá bændum, einnig hjá þeim, sem eru búnir að koma sér upp súgþurrkun, ef þeir vilja breyta til, og alveg óvist, að sú breyting yrði nokkuð til batnaðar. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé á móti því, að nýjar tilraunir séu gerðar til heyverkunar, en er það nú ekki eðlilegt, að ríkisstj. taki til greina till. Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins? Og það er það, sem núv. ríkisstj. hefur gert. Hún hefur vissulega tekið til greina till. Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins, og mér er ánægja í að segja það, að samband milli ríkisstj. og þessara stofnana bændanna hefur verið með ágætum. Og vissulega er eðlilegt, að sá ráðh., sem fer með landbúnaðarmál, hafi gott samband við samtök bændanna og hafi samráð við þá um þær nýjungar, sem æskilegt þykir að innleiða landbúnaðinum til gagns, bæði í nútíð og framtíð.