23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (4510)

349. mál, setning reglugerðar um skóla skv. 15.gr. laga um fávitastofnanir

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svör hans, og ég vil út af fyrir sig þakka honum fyrir fróðlega grg. um það, hvernig þessum skóla er háttað, hvað þar er kennt o. s. frv., sem voru gagnlegar upplýsingar. En það var þó ekki beint það, sem ég spurði um. Ég gat þess í mínum inngangsorðum, að ég gerði ráð fyrir því, að það væri farið eftir föstum reglum í þessum skóla, og ég gat þess þar einnig, að skólinn mundi hafa starfað frá 1958, og einmitt af þeim sökum, að skólinn hafði starfað allmörg ár, áður en hann var lögfestur, þá átti að vera þeim mun auðveldara að setja strax reglugerð um skólann, eins og boðið er í þessum lögum. Og það er enginn vafi á því, að það hefur verið tilætlun löggjafans.

Það er auðvitað ágætt, að þessar gæzlusystur, sem þarna útskrifast, eiga að vísu að ganga og fá atvinnu. En eigi að síður er náttúrlega æskilegt, að það sé kveðið nánar á um það í reglugerð, hver séu réttindi þeirra. Og alla vega er það vegna tillitsins til þeirra, sem ætla sér að sækja þennan skóla og leggja slíka atvinnu fyrir sig, æskilegt og nauðsynlegt, að það liggi fyrir alveg opinberlega, hvaða kröfur eru gerðar, að því er varðar inntökuskilyrði, hvernig námi er þarna háttað, hvaða réttindi próf úr þessum skóla veita o. s. frv. Ég held þess vegna, að þessi dráttur, sem á því hefur orðið að setja reglugerð, sé út af fyrir sig ekki réttlættur og hafi ekki verið réttlættur með svari hæstv. ráðh., þó að mér detti ekki í hug að halda því fram, að það hafi á nokkurn hátt verið illa á haldið í þessum skóla. Það geri ég ekki.

En þetta er aukaatriði, og aðalatriðið er sú yfirlýsing, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. á þá lund, að hann mundi nú beita sér fyrir því án ástæðulausrar tafar, að sett yrði reglugerð fyrir þennan skóla, og þá yfirlýsingu vil ég sérstaklega þakka. Og ég vænti þess, að það verði ekki langur dráttur á því eftir þetta, að þessi reglugerð sjái dagsins ljós. Og þá hefur þessi fsp. borið árangur, ef hún verður til þess að hraða þessu og hefur orðið til þess að vekja athygli hæstv. ráðh. á þessu, en hann hefur, eins og kunnugt er, ekki fjallað um þessi mál áður.