23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (4523)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. gerir það æði oft, þegar hann leggur fram fsp. á hæstv. Alþ., og eftir að hann hefur fengið fyrstu svör frá ráðh., að þá snýr hann sér til hinna og annarra þm. og ávarpar þá með frekari fsp. — til þess að reyna að koma á þá pólitískum höggum, að því er virðist. Ég hefði ekki staðið upp nema af því að hann nefndi mig á nafn sem einn af þeim, sem eiga sæti í umræddri nefnd, sem er að semja lög fyrir Sementsverksmiðju ríkisins. Ég hefði þó ekki þurft að standa upp, af því að hæstv. ráðh. er fullfær um að veita um þetta mál upplýsingar.

Ég þarf ekki að svara háttv. þm. öðru til en því, að ég hef verið nákunnugur mönnum og málefnum á Akranesi og í Sementsverksmiðjunni árum saman. Og eins og hann sjálfur sagði, hefur minn flokkur á Akranesi gert ályktanir um þessi mál, eftir að þau höfðu verið ítarlega rædd á fundum, þar sem meiri hluti fundarmanna voru starfsmenn verksmiðjunnar. Samvizka mín er í bezta lagi hvað snertir samráð við starfsliðið í verksmiðjunni, og það mun vafalaust koma á daginn, að mín afstaða, eins og hún er og verður, er byggð á þessum samráðum. Ég hef, eins og hann sjálfur sagði, flutt innan þessarar nefndar till. um, að tekin verði inn í lögin ákvæði um samstarfsnefnd sem nýja tilraun til atvinnulýðræðis. Og sú till. er svo til frá orði til orðs eins og brtt., sem ég hef flutt um frv. um Áburðarverksmiðju, sem hér liggur fyrir.

Ég tel mér ekki á þessu stigi heimilt að gefa frekari upplýsingar um, hvernig störf hafa gengið í þessari nefnd, og verða svör ráðh. að nægja um það, þangað til álitsgerð nefndarinnar liggur fyrir, sem getur orðið mjög fljótlega.