23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (4524)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Ég verð að lýsa sérstakri ánægju minni yfir þeim áhuga, sem fram hefur komið hjá ekki aðeins einum, heldur fleirum hv. alþm. á því, sem kallazt hefur samstarfsnefndir. Sérstaklega vil ég þó vitna til orða hv. 4. landsk. þm., Jónasar Árnasonar, vegna þess að ég minnist þess, að þegar ég flutti þáltill. hér í Sþ. fyrir 8–9 árum síðan, er fjallaði um þetta efni, þá voru það einmitt flokksbræður hans allir upp til hópa, bæði núv. og þeir, sem ekki eru það í dag, þótt þeir eigi setu á þingi, sem greiddu atkv. gegn þessari till.

Hún var að vísu samþykkt með atkvæðum stjórnarliðsins og reyndar fjölmargra framsóknarmanna líka, en við fsp., er ég gerði til þáv. hæstv. félmrh. fyrir 3–4 árum, var hans svar, að því miður hefði ekkert komið út úr þessu, vegna þess að samtök þau, er hv. þm., formaður frjálslyndra vinstri og hægri eða allra manna og stjórnar Alþýðusambands Íslands, er í, kærðu sig ekkert um, að þessu máli þokaði áfram.