23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í D-deild Alþingistíðinda. (4526)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki von, að ég drægist inn í sementsumræður á þessum fundi, og taldi það víðs fjarri, að svo færi, en tilefnið var það, að hæstv. iðnrh. gat þess, að hann og ríkisstj. væri velviljuð því að koma á samstarfsnefndum í ríkisfyrirtækjum líkt og gert hefði verið hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, og gladdist ég sannarlega yfir því að heyra það.

En svo kom hv. 7. þm. Reykv. og lýsti mér sem sterkum, heldur betur sterkum fjandmanni atvinnulýðræðis í landinu og fjandmanni þess, að komið væri á samstarfsnefndum í fyrirtækjum, t. d. ríkisfyrirtækjum. Ég kem alveg af fjöllum, ég verð að segja það. Ég minnist þess ekki, að ég hafi verið fjandmaður þess máls. Ég minnist þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma skrifað umsögn í Alþýðusambandi Íslands á móti slíkum málum eða beitt mér gegn þeim. Og enn þá meira er ég undrandi á því, ef svo rammt hefur kveðið að minni andspyrnu við þessi mál mér óvitandi, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. koma ekki sínum vilja fram í lýðræðisátt vegna andspyrnu minnar. Mér þykja það furðufréttir. Ég vildi helzt fá að vita, hvaða hæstv. félmrh. það er, sem ber mig sem skjöld fyrir sig í því, að hann geti ekki komið þessu máli fram. Það hefði verið full ástæða til þess að nefna hann. En svo mikið er víst, að fyrir þessu er enginn fótur, ekki flugufótur einu sinni. Og hæstv. ríkisstj. getur sett á samstarfsnefndir í öllum ríkisfyrirtækjum frá og með deginum í dag, hvenær sem hún vill, án þess að ég beri mig þar á móti, svo mikið er víst, enda hefði ég ekkert afl til að spyrna á móti því. Þetta er auðvitað mál ríkisstj. og stjórnenda þeirra ríkisfyrirtækja, sem þarna er um að ræða. Svona fyrirslátt er heldur óskemmtilegt að hlusta á á Alþingi Íslendinga, algerlega tilefnislausan. Ég vænti þess vegna, að það verði komið á samstarfsnefnd í Sementsverksmiðju ríkisins frá og með deginum á morgun, því að ekki strandar það á minni andstöðu.