23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í D-deild Alþingistíðinda. (4528)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Ég mun fagna því að hlusta á hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason, ræða um atvinnulýðræði, þótt ég hins vegar efist mjög um, að tillöguflutningur þeirra Alþb.-manna valdi því, að í dag er mikill áhugi fyrir auknu atvinnulýðræði eða fyrirtækjalýðræði hér á Íslandi og samstarfsnefndum. Ég geri ráð fyrir því, að þróunin, sem hefur átt sér stað á undanförnum tveimur áratugum í okkar nágrannalöndum, stuðli frekar að því heldur en þó að hann flytji þessar till. hér á Alþ.

Vegna orða hv. 9. þm. Reykv., Hannibals Valdimarssonar, þá auðvitað sýna þau hvað bezt það, að skoðanir hans í dag fara ekki allajafna saman við skoðanir hans í gær, og það, sem hann vildi hafa sagt í dag, það sagði hann öðruvísi í fyrradag. En þannig stóð á, ég rifja upp enn, þó að hann dragi það í efa, að ég hafi mælt þar satt og rétt, að þessi till. var flutt fyrir 8–9 árum, og mun vera hægt að fletta upp á því, hvenær það var, og hv. þm. ásamt öðrum þáv. þm. Alþb. greiddi atkv. gegn henni þá, að vísu á þeirri forsendu, að leitað var aðstoðar ríkisvaldsins til þess að ná þessu fram á meðal launþegasamtakanna og vinnuveitendasamtakanna. Það skal viðurkennt, að sú ástæða var borin fram. En ég man nú ekki betur en að á undanförnum árum og þó sérstaklega eftir að ég tók sæti á Alþ. hafi einmitt þessi hv. þm. og fleiri þm. úr hans röðum talið það lausn á öllum vandamálum að leiða ríkisvaldíð inn til þess að finna þá hina sömu lausn.