02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í D-deild Alþingistíðinda. (4539)

214. mál, Umferðarráð

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það var ljóst, eftir að hægri handar umferð hafði verið tekin upp, að nauðsynlegt var að stórauka umferðarfræðsluna frá því, sem áður var. Þess vegna var á síðasta þingi gerð sú breyting á umferðarlögum, að ákveðið var að kjósa sérstakt umferðarráð, sem var skipað fulltrúum allmargra samtaka og starfsmanna, sem þessi mál varða, og því var falið mjög viðtækt verkefni, eða sem hér segir:

1. Að beita sér fyrir því, að haldið sé uppi umferðarfræðslu í landinu.

2. Að vera fræðsluyfirvöldum, umferðarnefndum, sveitarfélögum og samtökum, er vinna að bættri umferðarmenningu, til hjálpar og ráðuneytis, eftir því sem óskað er og aðstæður leyfa.

3. Að standa fyrir útgáfu fræðslurita og bæklinga um umferðarmál og hafa milligöngu um útvegun kennslutækja og annarra gagna til nothæfrar fræðslustarfsemi.

4. Að hafa milligöngu um umferðarfræðslu í Ríkisútvarpi.

5. Að beita sér fyrir bættum umferðarháttum.

6. Að sjá um, að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda, legundir og orsakir umferðarslysa í landinu.

7. Að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál.

8. Að fylgjast með þróun umferðarmála erlendis og hagnýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á því svíði.

9. Að leitast við að sameina sem flesta aðila til samþykktra og samræmdra átaka í umferðarslysavörnum og bættri umferðarmenningu.

Eins og sést af þessu, er umferðarráði ætlað mjög víðtækt verkefni. Það hóf starf sitt á síðasta ári og hafði þá til umráða sérstaka fjárveitingu af fé því eða skatti þeim, sem innheimtur var vegna hægri handar umferðar á sínum tíma, en á þessu ári var því ætlað að fá fjárveitingu á fjárlögum. Samkv. reglum sínum samdi það allítarlega áætlun um þá starfsemi, sem það taldi sig þurfa að halda uppi á þessu ári, og var áætlun þessi upp á 6–8 millj. kr. Ýmsum kann að þykja það nokkuð há upphæð, en þegar athuguð er sú tillögugerð, sem ráðið gerði um starf sitt, þá vex mönnum tæpast þessi upphæð í augum, því að þar var gert ráð fyrir mjög víðtækri starfsemi og margþættri, að t. d. rekinn sé sérstakur umferðarskóli, Ungir vegfarendur, að gefið sé út blað, sem heitir Ökumaðurinn og sent er öllum ökumönnum í landinu, að haldið sé uppi margháttuðum fræðsluherferðum í fjölmiðlum, t. d. börnin í umferðinni, öryggisbelti og þjóðvegaakstur, ljósaathugun, notkun endurskinsmerkja í umferðinni, akstur í skammdegi, fræðslumyndaflokkur í sjónvarpi og umferðarfræðsla í hljóðvarpi. Þá er gert ráð fyrir víðtækri skólafræðslu, sem er fólgin í spurningakeppni, jólagetraun, á leiðinni í skólann, ýmiss konar verkefnum og útgáfu á nýrri kennslubók. Þá er gert ráð fyrir víðtækum erindrekstri vegna umferðaröryggisnefnda og annarrar starfsemi, sem gert er ráð fyrir, að ráðið haldi uppi. Þessi áætlun ráðsins um starfsemi þess á þessu ári var að sjálfsögðu send dómsmrn., sem gerði enga aths. við hana, en mælti hins vegar ekki með henni og sendi hana áleiðis til fjvn., og þar varð niðurstaðan sú, að öll fjárveitingin til ráðsins var skorin niður í 900 þús. kr. Ég held, að það hljóti öllum að vera tjóst, að erfitt sé að halda uppi eins víðtækri starfsemi og umferðarráði er ætlað fyrir þá upphæð. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp.:

„Telur dómsmrh. eða ríkisstj., að umferðarráð geti sinnt hlutverki sínu með aðeins 900 þús. kr. fjárveitingu?

Hefur ríkisstj. ekki í hyggju að tryggja ráðinu aukna fjárveitingu á þessu ári, og ef svo er, um hve mikla fjárhæð er þar að ræða?

Hvaða ráðagerðir eru uppi um auknar umferðarslysavarnir, og hvernig er fyrirhugað að vinna að auknum slysavörnum í umferðinni á þessu ári?“