02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í D-deild Alþingistíðinda. (4545)

354. mál, jarðvarmaveitur ríkisins

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Varðandi þessa fsp. á þskj. 371 hefur rn. borizt svo hljóðandi grg. frá orkumálastjóra, Jakobi Gíslasyni:

„Í lögum nr. 80 1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, segir í 1. gr. m. a. svo:

Ríkisstj. skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju við Mývatn og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju Mývatns. Í því skyni er henni heimilt: Að nýta jarðhitasvæðið við Námaskarð í þágu hitaveitu, er ríkisstj. lætur reisa og reka og m. a. skal gegna því hlutverki að selja kísilgúrverksmiðjunni jarðhita til reksturs síns.“

Í 7. gr. sömu laga segir enn fremur:

„Krefjist framkvæmd 1. gr. kaupa á jarðnæði og annarri aðstöðu í eigu annarra en ríkisins, án þess að samningar náist um kaup þessara réttinda, skal ríkisstj. heimilt að taka þau eignarnámi gegn bótum eftir mati óvilhallra manna. Um eignarnámið skal farið að lögum nr. 61 14. nóv. 1917, um framkvæmd eignarnáms.“

Og loks segir svo í 1 l. gr. sömu laga:

„Ráðherra raforkumála fer með mál varðandi hitaveituna og setur hann nánari reglur um stofnun hennar og rekstur.“

Með tilvísun til framangreindra laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn skrifaði ráðh. raforkumála, Ingólfur Jónsson, raforkumálastjóra bréf dags. 26. sept. 1967, þar sem hann fól Orkustofnuninni að annast byggingu og rekstur jarðhitaveitu þeirrar, sem ætlað er að sjá verksmiðju Kísiliðjunnar h. f. fyrir jarðhita, svo sem ráð er fyrir gert í 4. tölul. 1. gr. laga nr. 80 1966. Jafnframt var orkumálastjóra veitt prókúruumboð fyrir jarðhitaveituna, sem nær til að gera sölusamning við orkukaupendur og til að taka nauðsynleg lán hjá Orkusjóði til byggingar og reksturs jarðhítaveitunnar. Jarðhitaveitan skyldi rekin sem fjárhagslega sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi. Samningar voru síðan gerðir við Kísiliðjuna h. f. um jarðgufuviðskiptin. Síðan hefur jarðvarmaveitunni bætzt annar viðskiptavinur, jarðgufuraforkuver Laxárvirkjunar, sem reist var í Bjarnarflagi skammt frá gufubrunnum eða borholum Jarðvarmaveitna ríkisins. Raforkuverið kaupir jafnmikla gufu og Kísiliðjan að magni til, en með lægri þrýstingi en Kísiliðjan þarf að hafa.

Eignir Jarðvarmaveitna ríkisins eru fyrst og fremst níu borholur með tilheyrandi búnaði og gufuveita á milli þeirra og til kísilverksmiðjunnar og jarðgufuraforkuversins, auk þess geymsluhús og ýmislegt smávegis. Stofnkostnaður mannvirkja í eigu Jarðvarmaveitna ríkisins var í árslok 1970 orðinn u. þ. b. 72 millj. kr. Gufusalan er nú tæplega 500 þús. tonn á ári og tekjur af henni áætlaðar 10.8 millj. kr. árið 1971. Hjá Orkustofnun annast sem stendur jarðhitadeild rekstur Jarðvarmaveitna ríkisins og Karl Ragnars verkfræðingur hefur framkvæmdastjórn með höndum.“