02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í D-deild Alþingistíðinda. (4546)

354. mál, jarðvarmaveitur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar, þetta glögga svar við minni fsp., sem var tvíliða. Það er ekki mikið um þetta að segja, en þó vildi ég vekja athygli á því, að þegar orkulög voru sett síðast, sem mun hafa verið á þingi 1967, hygg ég að það hafi einmitt verið megintilgangur þeirra að skilja á milli þess, sem nú er nefnt Orkustofnun, og Rafmagnsveitna ríkisins, eða með öðrum orðum, í raun og veru á milli þess, sem nefna má rannsóknaraðila, og framkvæmda- og rekstraraðila. Ég verð að láta í ljósi þann skilning minn á þessari löggjöf, að þetta hafi einmitt verið ein grundvallarundirstaða þessarar skiptingar, sem þarna kemur fram, að Orkustofnuninni sé ekki ætlað að vera rekstrar- eða framkvæmdaaðili. Ég sé nú ekki annað en að það hefði verið mun eðlilegra, þegar þessar jarðvarmaveitur voru settar upp, sem er samkv. heimild í lögunum um kísilgúrverksmiðjuna, sem eru að vísu eldri og sett áður en orkulögin, — þá hefði það verið eðlilegra, að Rafmagnsveitur ríkisins hefðu verið aðilinn, sem einnig hefði haft þessa framkvæmd með höndum. Þetta vildi ég láta koma hér fram um leið og ég endurtek, að ég þakka mjög vel fyrir svörin. Ég sé það, að það var mjög nauðsynlegt, að þessi fsp. kæmi fram, því að ég hygg, að það séu margir alþm. hér, sem ekki hefur verið fyllilega ljóst það, sem nú er upplýst.