09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í D-deild Alþingistíðinda. (4559)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir það svar, sem hann var að gefa við þeirri fsp., sem ég hef borið fram. Það er greinilegt, og hefur verið um það bæði rætt og ritað mikið, að allur sá langi dráttur, sem orðinn er, síðan hin svokallaða flugvallarnefnd skilaði álíti sínu, en það var 18. maí 1967, um það, hvernig standa skuli að þörfum flugsins og hvort byggja eigi nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu, er mjög til baga og hlýtur í framtíðinni að kosta okkur talsverð aukaútgjöld. Ég vil aðeins benda á, að meðan engin ákvörðun er tekin um, hvort Reykjavíkurflugvöllur á að verða áfram notaður hér sem aðalflugvöllurinn fyrir innanlandsflugið í landinu, eru framkvæmdir unnar þar fyrir millj. og stundum tugmillj. kr. ár frá ári, sem síðar kunna að verða verðlitlar, ef horfið yrði að því ráði að byggja annan flugvöll hér fyrir innanlandsflugið í næsta nágrenni Reykjavíkur. Það eitt út af fyrir sig sýnir, að ákvörðun um, hvort byggja eigi flugvöll hér á höfuðborgarsvæðinu eða ekki, má ekki dragast lengur.

Mér er kunnugt um þau tvö álit, sem koma fram í þessari álitsgerð flugvallarnefndar, sem nú er orðin milli þriggja og fjögurra ára gömul, eins og ég vék að. En það er ekki einasta fyrir flugið, sem þessi dráttur allur veldur miklum óþægindum og kemur til með að kosta þjóðina sem heild stórfé, heldur kemur þetta einnig illa við ýmsa ábúendur á Álftanessvæðinu. Í því sambandi leyfi ég mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp lítinn hluta úr bréfi, sem mér hefur borizt frá einum ábúanda í hreppnum, en þar segir svo:

„Eini hreppurinn í nágrenni Reykjavíkur, sem verður fámennari með hverju árinu sem líður, er Bessastaðahreppur, og eru fyrir löngu orðin vandræði af fámenninu. Þessi þróun í hreppnum stafar einvörðungu af því, að nauðsynleg skipulagning byggðar í hreppnum hefur verið tafin vegna hugmyndar um flugvöll á Álftanesi, fyrst fyrir millilandaflug, en síðar fyrir innanlandsflugið eitt. Enn er hluti hreppsins, þrjár jarðir, í banni um skipulagningu, en slíku vill sveitarstjórnin ekki una, og gengur því hvorki né rekur um þetta áhugamál sveitarstjórnarinnar. Hversu lengi á enn að hindra eðlilega þróun þessa eina sveitarfélags?“

Þetta sjónarmið er sem sagt til staðar á Álftanessvæðinu, þar sem komið hefur til umr. að byggja nýjan flugvöll. Ég vil því leggja áherzlu á það, að hæstv. ráðh. og flugmálayfirvöld láti það nú ekki lengur dragast að taka ákvörðun um, hvort byggður verður flugvöllur í næsta nágrenni Reykjavíkur, og sá dráttur og þau vandræði, sem hafa orðið í þessu sérstaka sveitarfélagi vegna þeirra bollalegginga, sem uppi hafa verið um þessi efni, verði ekki lengur til þess, að menn standi í vafa um það, hvort þarna á að koma flugvöllur eða ekki, og ef ekki verður byggður flugvöllur á þessu svæði, þá verði íbúum þessa sveitarfélags og sveitarstjórninni ekki lengur meinað að ganga frá skipulagningu þessa svæðis.