09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í D-deild Alþingistíðinda. (4568)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er verið að spyrja um það, hvar till. rn. væru í sambandi við flugvallargerðina. Ég var að lýsa þeim till. áðan og hef ekki meira um það að segja, vona, að hv. 1. þm. Reykn. hafi heyrt það, sem ég sagði hér áðan. Till. rn. um gerð flugvallar á Reykjavíkursvæðinu er að fara eftir meirihlutatillögu nefndarinnar, X-tillögunni, og byggja minni flugvöll, sem þó gefur möguleika til þess að hafa flugbrautir allt að 2300 m langar og getur orðið fyrir allar léttari flugvélar og einnig minni þotur. Þetta eru till. rn., sem ég var hér að lýsa áðan. (Gripið fram í.) Till. rn., sem ég var að lýsa hér áðan, verður væntanlega borin undir Alþ., því að rn. hefur aldrei dottið í hug, að það hefði vald til slíkrar ákvörðunar, en eins og sagt var hér áðan, þá telur rn. það skyldu sína að koma með till. í þessu máli, sem er byggð á undangenginni rannsókn og að athuguðu máli er talin skynsamlegust. Að sjálfsögðu verður við gerð flugvallarins gert allt, sem unnt er, til þess að taka tillit til sveitarfélaganna, nálægra sveitarfélaga, líkt og Reykjavíkur, þegar talað er um það, að flugmálastjórnin og ríkisstj. vilji ekki brjóta í bága við skipulag Reykjavíkur. Það er ekki annað, sem hér er um að ræða gagnvart Reykjavík, heldur en það að hlíta skipulagi Reykjavíkur, eins og lög reyndar mæta fyrir um, þegar skipulag hefur verið staðfest.

Hv. 6. landsk. sagði, að ég hefði smokrað mér fram hjá því að svara áðan. Það var alls ekki meiningin. Í svari mínu áðan tók ég það fram, að rn. mundi hefja viðræður við eigendur hinna nefndu þriggja jarða á Álftanesi og leita eftir að ná samkomulagi bæði í verði og greiðslukjörum. Síðan mun rn. bera þetta undir Alþ., en rn. er ljóst, að það getur á engan hátt bundið Alþ. Alþ. getur ekki verið bundið af samkomulagi, sem rn. er að reyna að gera, og það samkomulag, sem rn. gerir við eigendur þessara jarða, verður með þeim fyrirvara, að Alþ. fallist á það. Nú vona ég, að hv. 6. landsk. þm. hafi fengið svar við því, sem verið er að tala um.

Hv. 12. þm. Reykv. talaði um það, að æskilegt væri að athuga þetta mál nánar, kasta ekki fyrir borð till. minni hl. flugvallarnefndar. Í því felst það, að hann og sjálfsagt fleiri telja ekki útilokað að gera stóran flugvöll á Álftanesi og að hafa tvo millilandaflugvelli, hér nálægt Reykjavik og í Keflavík. Þessu telur rn. ekki þörf á, og eins og var reyndar tekið fram í svari mínu áðan, þá er ekki unnt að gera nægilega langar flugbrautir á Álftanesi til þess, að það geti nokkurn tíma orðið fullnægjandi millilandaftugvöllur miðað við þær stóru flugvélar, sem nú eru á ferðinni. Og auk þess þyrfti að leggja mikla fjármuni fram við að taka eignarnámi 16 jarðir, og eins og áður er sagt, þyrfti að byggja nýtt forsetasetur, ef flugvöllur yrði byggður á Álftanesi eftir till. minni hl. Ég hygg, að að athuguðu máli geti nú Alþ. fallizt á þá skoðun, sem rn. hefur á þessu, en það er vitanlega Alþingis, þegar að því kemur, að ákveða það, hvor leiðin verður valin. Hér var einn hv. þm. áðan að tala um, að flugvellir úti á landi væru ekki nægjanlega útbúnir að öryggistækjum eða öðru, sem talið er nauðsynlegt að hafa á flugvöllum. Og þetta er rétt. Ég sagði hér í vetur, þegar talað var um flugmál og öryggismál, að það væri æskilegt, að betra ástand væri á þessu heldur en er. Og það kom greinilega fram í svari rn. við bréfi flugmanna, atvinnuflugmanna, að það er talið nauðsynlegt að gera margt fleira í öryggismálum flugvalla en enn hefur verið gert, enda þótt það verði ekki viðurkennt, að hér sé um atgert neyðarástand að ræða, eins og stundum hefur verið sagt.

Spurt er um það, hvort gerð hafi verið áætlun í sambandi við flugvelli úti á landi og öryggismálin. Það kom fram í erindi rn., að það hefur verið gert, og það kom einnig fram, að þessi áætlun, sem er frá árunum 1969–1973, er nú í endurskoðun með það fyrir augum að fullnægja óskum atvinnuflugmanna. Atvinnuflugmenn hafa komið tvisvar til viðræðna við mig í rn. um þessi mál, og þeir skilja það, að þetta verður ekki allt gert í einu, en hafa góðfúslega bent á það, sem þeir telja eðlilegt að gera, og þeir hafa raðað verkefnunum upp, eftir því sem þeir telja nauðsynlegast vera. Það er þess vegna ekki um annað að ræða en að endurskoða þá áætlun, sem fyrir hendi er, og reyna að uppfylla sem fyrst þær óskir, sem flugmenn bera fram örygginu til handa, því að allir eru sammála um það, að það eigi að hafa fyllsta öryggi í þessum málum. Og hvernig ætti annað að vera en eitthvað væri enn ópert í flugmálum eins og öðrum málum í okkar þjóðfétagi, í okkar stóra og strjálbýla landi, og ég held, að við verðum ásakaðir um eitthvað annað en athafnaleysi, framkvæmdaleysi í uppbyggingu hinna ýmsu mála.

Ég held, að það sé þá ekki fleira, sem ég hef skrifað niður og þörf er á að svara í sambandi við þessi mál. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið nægileg svör við sinni fsp. og þessar umr. hafi orðið til þess að skýra málin nokkuð.