09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (4570)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. Ég verð enn að lýsa óánægju minni yfir svörum hæstv. ráðh. Mér finnst hann hafa farið alveg fram hjá kjarna þess, sem ég spurði um. Ég var ekki að spyrja um það, hvort rn. mundi taka upp viðræður við landeigendur á Álftanesi á næstunni um kaup á jörðum þeirra, og ég var ekki að spyrja um það, hvort rn. mundi einhvern tíma í framtíðinni leggja málið fyrir Alþ., heldur hitt, hvort ráðh. teldi, að vegna aðgerða, sem gerðar hafa verið af hálfu rn. varðandi þessar þrjár jarðir með því að taka þetta land frá, þá sé ríkinu nú þegar skylt að kaupa þessar jarðir, og þegar málið þá loksins verður lagt fyrir Alþ., hvort Alþ. eigi þá að standa frammi fyrir þessu sem gerðum hlut.