09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (4572)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 5. þm. Vesturl. vakti athygli á því, að ástæða væri til að taka tillit til hins mannlega, ef það ætti nú að fara að byggja stóran flugvöll á Álftanesi. En ég vil þá einnig vekja athygli á því, að till. rn. er ekki að byggja stóran flugvöll, heldur lítinn flugvöll. Og það hefur verið athugað frá mörgum hliðum, hvort það gæti brotið í bága við það mannlega, og svo virðist ekki vera.

Hv. 6. landsk. þm. spyr að því enn, — af því að mér tekst aldrei að svara svo skýrt, að hann geti skilið það, sem ég segi, — hvort Alþ. verði skuldbundið til þess að kaupa þessar þrjár jarðir á Álftanesi, vegna þess að það hafi verið meinað að stofna þar til framkvæmda. Ég held, að alls ekki sé um það að ræða, að það hafi neitt komið þar fram enn sem komið er með framkvæmdir á þessum jörðum. Mér er ekki kunnugt um það, og þess vegna hefur rn. ekki orsakað neina skaðabótaskyldu eða getur búizt við neinum skaðabótakröfum. Þess vegna er það, sem ég legg áherzlu á, að sem fyrst verði teknar upp viðræður við eigendur þessara jarða, svo að sem fyrst megi verða úr því skorið, hvort jarðirnar verða keyptar eða ekki.