09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í D-deild Alþingistíðinda. (4579)

356. mál, þungaskattur

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við þeirri fsp., sem ég lýsti hér áðan, enda þótt svörin væru á engan hátt fullkomin eða upplýstu að verulegu leyti það, sem um er spurt.

Það má til sanns vegar færa, að sú reynsla, sem fengin er af þungaskattinum, sá reynslutími sé of stuttur til þess, að hægt sé að svara þessu, svo að tæmandi sé. Hins vegar virðist mér augljóst, að þrátt fyrir þennan stutta tíma, sem þessi innheimta á þungaskattinum hefur gilt, hefur það gengið í þá áttina að auka tekjurnar af honum um 10%, og þegar tillit er tekið til þess, að það er að verulegu leyti seinni hluta ársins, má gera ráð fyrir því, að þessi tekjuaukning verði meiri en 10%, þegar á árið í heild er lítið. Ég verð því að segja, að mér sýnist, að það komi þar fram, sem margir óttuðust, að þessi breyting á innheimtunni mundi verka eins og hækkaður skattur.

Út af því, sem hæstv. ráðh. gat um, að heimildin, sem hefði verið gefin hér á hv. Alþ., um það, að þannig mætti innheimta skattinn, þá minnist ég þess ekki, að það hafi þá verið verulega rætt hér á hv. Alþ., og ekki heldur, að það hafi verið túlkað á þann veg, að með þessum hætti mætti auka tekjurnar af þungaskatti. Ég tel að það hafi ekki verið gert, heldur hafi verið talið, að meðaltalið mundi verða svipað, þó að mismunurinn yrði nokkur á milli bifreiða eftir notkun þeirra. Þá verður einnig að hafa það í huga í sambandi við þetta, að hér er um að ræða þær flutningabifreiðar, sem flytja þær vörur, sem mestu máli skiptir, að verðlagi sé haldið niðri á, þ. e. nauðsynjavörur eins og mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir og ýmsar nauðsynjavörur, út um landsbyggðina. Þess vegna hefur hér á hv. Alþ. alltaf verið reynt að stuðla að því, að þessi skattheimta fylgdi ekki eins fast eftir annarri skattheimtu í sambandi við vegina.

Hæstv. ráðh. gaf fyrirheit um það, að þegar akstur væri kominn yfir 30 þús. km, þá yrði gefinn talsverður afsláttur, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Eðlilegt hefði verið, að þetta væri sett inn í reglugerðina, svo að það væri ekki á valdi ráðh. eða rn. að ákveða, hver þessi fjárhæð yrði. Það er því nauðsynlegt, að minni hyggju að endurskoða þessa reglugerð, a. m. k. þegar ár verður liðið frá því, að hún var sett eða farið var að starfrækja innheimtuna eftir henni, og binda þá fastmælum, hve mikill þessi afsláttur á að vera.

Hér er líka um fleiri atriði að ræða eins og vöruflutningabílana, sem verða að flytja lífsnauðsynjarnar út um landsbyggðina og frá landsbyggðinni vegna markaðserfiðleika. Ég vil því undirstrika það, að ég tel, að það eigi ekki að nota þessa aðferð til skattheimtu til þess að auka á það misræmi, sem er í búsetu landsmanna. Það má ekki nota innheimtuaðferðina, svo að hún verki á þann veg. Þess vegna verður að endurskoða reglugerðina og taka tillit til þess.