09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (4581)

356. mál, þungaskattur

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika, að það, sem fram kom í ræðu hæstv. samgrh. nú, í seinni ræðu hans, var miklu aðgerðarmeira og miklu nær því, sem ég vildi fá út úr svari við þessari fsp., þar sem ráðh. lýsti því afdráttarlaust yfir, að reglugerð yrði sett og afsláttur yrði veittur af þungaskattinum, þegar komið væri fram yfir 30 þús. km, og það verulegur afsláttur. Það hefur aldrei verið mín hugsun, að gengið yrði lengra í þessu en svo, að þungaskatturinn skilaði sér svipað og áður var, heldur hitt, að þessi innheimtuaðferð yrði ekki til þess að ná inn verulegum fjármunum og það af þeim, sem sízt skyldi, bara aðferðin sjálf yrði til þess að auka skattinn. Það er mergur málsins, og það tel ég, að hafi komið fram í ræðu hæstv. ráðh. nú, að að því mundi verða stefnt, og þá tel ég tilgangi náð með þessari fsp.