09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í D-deild Alþingistíðinda. (4584)

226. mál, læknisþjónusta í héruðum

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Á Alþingi 22. apríl 1970 var samþykkt þál. um endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðislöggjafar. Með þessari ályktun var heilbrmrh. falið að skipa „nú þegar“, eins og það er orðað í ályktuninni, nefnd til að endurskoða ýmsa þætti heilbrigðislöggjafarinnar og þá sérstaklega um læknaskipun og sjúkrahús í þeim tilgangi, að komið verði á betri heilbrigðisþjónustu í landinu og m. a. með það fyrir augum, að læknar fáist til starfa í þeim héruðum, sem nú eru læknislaus. En þessi læknislausu héruð eru nú orðin nokkuð mörg og hafa sum verið læknislaus árum saman, og má í rauninni segja, að þar ríki víða alveg óviðunandi ástand í þessum efnum. Samkv. till. átti nefndin að vera skipuð fimm mönnum. Formaður nefndarinnar skyldi vera landlæknir eða ráðuneytisstjóri í heilbrmrn. Í nefndinni skyldu enn fremur vera tveir menn tilnefndir af Læknafélagi Íslands, og skyldi þar vera um að ræða héraðslækni og sjúkrahúslækni. Einn nm. skyldi tilnefndur af læknadeild Háskóla Íslands og einn af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Með því að gera ráð fyrir slíkri skipan nefndarinnar var sýnilega að því stefnt að koma á samstarfi ýmissa aðila, sem líklegastir eru til þess í sameiningu og samstarfi að geta gert till. um að ráða bót á þessum vanda. Þá var enn í till. mælt fyrir um það, að nefndin skyldi þegar hefja störf og skila till. sínum til úrbóta eigi síðar en 1. marz n. k., þ. e. 1. marz 1971.

Í byrjun þessa þings, þegar liðið var nokkuð mikið á sjötta mánuð, frá því að till. hafði verið samþykkt, gerði ég fsp. um það til hæstv. ríkisstj., hvað liði störfum þessarar nefndar, sem ég gerði þá ráð fyrir, að mundi hafa verið skipuð „nú þegar“, eins og mælt var fyrir í þál., þ. e. þegar eftir að hún var samþykkt, og mátti þá líklegt telja, að eitthvað væri vitað um störf hennar. Því miður kom það í ljós, að nefndin hafði ekki verið skipuð „nú þegar“, heldur var hún skipuð um það leyti, sem fsp. kom fram á Alþ., eða kannske rétt áður. Hún var skipuð 12. okt. og hafði um það leyti, sem fsp. var svarað, varla hafið störf. Nú fékk ég hins vegar upplýsingar um það, hverjir ættu sæti í þessari nefnd, og eru það allt mætir menn. Frá heilbrmrn. er það ráðuneytisstjórinn, Páll Sigurðsson læknir, frá Læknafélaginu eru það læknarnir Ásmundur Brekkan og Brynleifur Steingrímsson, frá læknadeildinni Tómas Helgason prófessor og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri.

Nú er liðinn sá tími, sem nefndinni var ætlaður til starfa samkv. ályktuninni, og því hef ég talið rétt, þar sem hér er um mjög brýnt mál að ræða, að bera fram í annað sinn á þessu þingi fsp. varðandi þetta mál. Fsp. er á þskj. 416, svo hljóðandi:

„Hvað líður störfum nefndar, sem skipuð var 12. okt. 1970 samkv. ályktun Alþingis 22. apríl sama ár til þess að gera till. um heilbrigðismál, m. a. með það fyrir augum, að læknar fáist til starfa í þeim héruðum, sem eru læknislaus, og átti samkv. þál. að skila till. sínum til úrbóta eigi síðar en 1. marz 1971?“