09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í D-deild Alþingistíðinda. (4585)

226. mál, læknisþjónusta í héruðum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur nú sagt margt af því, sem ég vildi segja, sem eru skýringar á því, hvað nefndin tók seint til starfa, að öðru leyti en því, að hann gat ekki þeirrar ástæðu, sem til þess lá, að nefndin tók ekki fyrr til starfa en 12. okt. s. l., en það var fyrst og fremst af því, að það stóð á tilnefningu þeirra aðila, sem samkv. þál. var skylt að leita til um tilnefningu á mönnum í nefndina. Það var höfuðástæðan. Eins og skýrt var frá á s. l. hausti, þegar fsp. sama efnis kom fram um þetta mál, í okt., þá var þeim aðilum, sem unnu að till., skrifað þá þegar og þeir beðnir um að tilnefna menn í nefndina. En nefndin reyndist ekki fullskipuð, eins og áður er sagt, núna í októbermánuði og hafði nýlega hafið störf, þegar fsp. var borin fram, og var skýrt frá því á þeim tíma. Enn fremur lágu aðrar ástæður til þess, að það dróst, að nefndin tæki til starfa, og olli því annars vegar það, eins og fyrr er sagt, að tilnefningar drógust, og hins vegar það, að um þetta sama leyti varð breyting á skipan rn., þannig að nýr sérstakur ráðuneytisstjóri var að taka til starfa, og tók hann við formennsku í nefndinni.

Eins og skýrt var frá í okt. s.l., hefur verið lögð á það rík áherzla af rn. hálfu, að störfum þessarar nefndar yrði hraðað, en einnig var lögð á það áherzla, að nefndin tæki til gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar flest þau lög og lagaákvæði, er að þessum málum lúta, og gerði heildarbrtt. um þau mál. Nefndin hefur þannig tekið til endurskoðunar sjúkrahúsalög frá 1964, læknaskipunarlög frá 1965, með áorðnum breytingum, heilsuverndarlög frá 1955, lög um læknahéraðasjóði frá 1970 og lög um heilsuvernd í skólum frá 1957. Auk þess hefur hún tekið til athugunar reglugerðir, sem settar hafa verið samkvæmt þessum lögum.

Nefndarstarf þetta er nú komið vel á veg, þó að komið sé fram yfir umræddan tíma, enda hefur verkefnið reynzt umfangsmeira en upphaflega var búizt við, og fjallar nefndin nú um drög að lögum um heilbrigðisþjónustuna almennt, þar sem ákvæði þeirra laga, sem hér hafa verið nefnd, hafa ekki verið sett saman í einn lagabálk. En þessi drög eru enn á umræðustigi og of snemmt að segja til um, hvernig þau muni verða í endanlegri gerð. Enn þá er hins vegar lögð á það mikil áherzla að geta lagt fram lagafrv. frá nefndinni á yfirstandandi þingi.