09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (4589)

226. mál, læknisþjónusta í héruðum

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef nú þegar talað tvisvar og skal ekki segja hér nema örfá orð. En hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni áðan, að nefndin, sem við höfum verið að ræða hér um, mundi hafa rætt við mjög marga aðila. Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort honum sé kunnugt um, að hún hafi t. d. rætt við sveitarstjórnir í hinum læknislausu héruðum. Að öðru leyti ætla ég ekki að segja annað en það, af því að hér hefur nokkuð verið minnzt á lög og lagabreytingar og þær úrbætur, sem gera ætti með lögum, að ég hygg, að það muni ekki verða talin úrbót í þessu máli að leggja niður læknislaus héruð. Það vil ég gjarnan að fram komi hér.