16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (4594)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Varðandi 1. lið þessarar fsp. um það, hvort ríkisstj. hafi ákveðið að lækka stofnlán út á fiskiskip smíðuð innanlands úr 90 í 85%, vit ég gefa nokkuð frekari skýringu. Ríkisstj. hefur í sjálfu sér ekki ákveðið að lækka stofnlánin úr 90 í 85%. Hins vegar hefur ríkisstj. tekið ákvarðanir, sem miða að því, að viðbótarstofnlán, sem voru 10% á árunum 1969 og 1970, gætu haldið áfram, en verði ekki nema 5%. En til viðbótar við 10% lánin á þessum tveimur árum veitti Atvinnujöfnunarsjóður 5% lán, þannig að lánin út á fiskiskip smíðuð innanlands voru fyrst 75% úr Fiskveiðasjóði, síðan þessi 10% lán, sem ríkisstj. hlutaðist til um og síðar komu frá atvinnumálanefnd ríkisins, og til viðbótar við þau þessi 5% að jafnaði frá Atvinnujöfnunarsjóði, sem ég geri ráð fyrir, að haldi áfram, en ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um. En með þessu móti mundu stofnlánin verða 75%+5%+5%, eða 85% út á fiskiskip smíðuð innanlands. Lækkunin er miðuð við 20. jan., þegar Fiskveiðasjóði var tilkynnt um þetta, og lækkunin verður ekki látin ná til þeirra, sem höfðu gert samninga um skipasmíði innanlands og sótt um stofnlán, áður en ákvörðunin var tekin með þessum tímamörkum, þegar hún var tilkynnt 20. janúar.