16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í D-deild Alþingistíðinda. (4605)

359. mál, starfsmannaráðningar á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Um allmargra ára bil var sú starfsemi, sem ríkið rak á Keflavíkurflugvelli, svolítið svipuð óhreinu börnunum hennar Evu, hún var falin og það talið stappa nærri goðgá að láta það vera á alþjóðar vitund, hvað þar fór fram. Nú rekur ríkið þarna þrenns konar starfsemi, sem mannaráðningar þarf til. Fyrst og fremst er það tollgæzlan, sem er hluti af almennum afgreiðslustörfum fyrir farþega, sem fara úr landinu og koma inn í það, það er almenn löggæzla með lögreglumönnum, og það eru verzlunarstörf í sambandi við fríhöfnina og hennar sölubúðir á Keflavíkurflugvelli. Á síðari árum hafa menn tekið að líta þessa starfsemi allt öðrum augum en áður var og það góðu heilli. Engu að síður er það mörgum ráðgáta, hvers vegna hefur þurft að draga þessa almennu starfsemi ríkisins undan því að lúta sömu lögum og önnur starfsemi ríkisins. Vænti ég þess, að það hafi á sínum tíma verið mest af misskilningi, sem nú er ýmist að leiðréttast eða kannske leiðréttur þegar. Í 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir á þessa leið í upphafi greinarinnar:

„Lausar stöður skal auglýsa í Lögbirtingablaðinu, venjulega með fjögurra vikna fyrirvara“, o. s. frv.

Í þessari sömu grein er málsgrein, sem segir, að ákvæði þessarar greinar taki ekki til starfa í þágu utanríkisþjónustunnar. Sjálfsagt hefur það á sínum tíma verið undir því yfirskini, að allt væri þetta utanríkisþjónusta, sem hér var farið öðruvísi að en í almennum efnum. En eftir þeim skilningi, sem ég legg í orðið utanríkisþjónusta og ég ætla, að allur þorri manna geri, þá heyrir ekkert af þessu, hvorki tollgæzlan, löggæzlan né heldur verzlunin í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, undir utanríkisþjónustuna í þeim skilningi, enda þótt öll þessi starfsemi á Keflavíkurflugvelli lúti yfirstjórn utanrrn. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram fsp. um þessi efni, og er fsp. í fjórum töluliðum:

„1. Eru stöður, sem ríkið veitir á Keflavíkurflugvelli, ekki auglýstar, svo sem 1. mgr. 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gerir ráð fyrir?

2. Hvað hafa margir lögregluþjónar verið ráðnir til starfa á Keflavíkurflugvelli síðasta áratug, og hvað margar af þeim stöðum hafa verið auglýstar lausar til umsóknar?

3. Í hvað margar stöður tollþjóna og yfirmanna í tollgæzlu hefur verið ráðið sama tímabil, og hve margar þeirra hafa verið auglýstar?

4. Hvað margir fríhafnarstarfsmenn hafa hafið störf á sama tímabili, og hve mörg þeirra starfa hafa verið auglýst?“

Vænti ég þess, að hæstv. ráðh. geti gefið við þessu greið svör, enda spurningarnar ekki flóknar.