23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (4619)

360. mál, friðlýsing Eldborgar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með bréfi dags. 19. ágúst 1970 tilkynnti Náttúruverndarráð menntmrn., að ráðið hefði samþykkt að friðlýsa gíginn Eldborg við Drottningu í Gullbringusýslu. Með bréfi til Náttúruverndarráðs dags. 25. sama mánaðar samþykkti rn. friðlýsingu þessa fyrir sitt leyti. Í bréfi rn. er jafnframt bent á, að rn. hefði ekki yfir sérstökum fjárveitingum að ráða til að standa straum af hugsanlegum skaðabótum eða hugsanlegum fjárútlátum, sem af friðlýsingunni kynni að leiða. Samkv. gildandi náttúruverndarlögum er framkvæmd friðlýsingarmála af slíku tagi með þeim hætti, að Náttúruverndarráð tekur fyrst ákvörðun um friðlýsingu, en ákvörðunin kemur ekki til framkvæmda fyrr en menntmrn. hefur lagt samþykki sitt á hana. Að fengnu samþykki rn. skal formaður Náttúruverndarráðs hlutast til um, að friðlýsingin sé birt almenningi, og hefur það jafnan verið gert með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Náttúruverndarráð hefur ekki enn auglýst friðlýsingu Eldborgar, og mun ástæðan vera sú, að erfitt mun vera að gera sér fyrir fram fyllilega grein fyrir, hvort eða hvaða skaðabótakröfur eða fjárútlát kunni að fylgja í kjölfar friðlýsingarinnar. Agnúar núgildandi náttúruverndarlaga eru, eins og kunnugt er, margir. En einn þeirra er einmitt fólginn í því, hversu reglurnar um aðferðir við friðlýsingu eru óþjálar og ótraustar í framkvæmd.

Með hinu nýja náttúruverndarfrv. eða frv. til laga um náttúruvernd, sem nú liggur fyrir Alþ., hefur m. a. verið leitazt við að setja nýjar reglur um þetta efni, sem ættu að tryggja örugga og ábyrga framkvæmd friðlýsingarmála. Það hefur verið stefna rn. að samþykkja ekki friðlýsingar nema með fyrirvara um kostnaðarhlið málsins í hverju tilviki. Reynslan hefur sýnt, að á slíkum fyrirvara er fyllsta þörf, og má sem dæmi nefna náttúruverndaraðgerðirnar í tilefni af vegarlagningu kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn. Er enginn vafi á, að nauðsynlegt er hverju sinni að huga vandlega að þeim lögfylgjum, sem friðlýsing og aðrar náttúruverndaraðgerðir kunna að hafa í för með sér. Verði náttúruverndarfrv. að lögum, eins og það er nú úr garði gert, þá mundu þau lög mjög auðvelda stjórnvöldum allar friðlýsingaraðgerðir og tryggja forsvaranleg og fjárhagslega ábyrg vinnubrögð í þeim efnum. Mundi Náttúruverndarráð þá væntanlega öðlast skilyrði til að friðlýsa Eldborg og aðrar náttúrugersemar með skjótara og öruggara hætti en nú virðist unnt að óbreyttum lögum.