18.12.1970
Neðri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

161. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til l. um breytingu á tollskrá til meðferðar, en frv. er komið frá hv. Ed., sem gerði á frv. breytingar, er fjhn. Ed. flutti sem brtt. á þskj. 255 og 261. Við athugun málsins í hv. fjhn. þd. kom í ljós, að gera þyrfti breytingar við frv., þ. e. sér í lagi vegna brtt., sem samþykktar höfðu verið í Ed. Þær brtt., sem n. flytur á þskj. 290, eru einungis til leiðréttingar, og vegna þess, hvernig tollskráin er upp byggð, eru þær gerðar í samráði við — eins og fram kemur í nál. á þskj. 289 — þá Björn Hermannsson og Ögmund Guðmundsson, sem eru fulltrúar fjmrn. í tollskrárnefnd. A-liður brtt. fjhn. á þskj. 290 er, eins og ég sagði áðan, eingöngu til leiðréttingar og samræmingar við tollskrána. Þó er eitt atriði, sem ég vil sérstaklega benda á. Í hv. Ed. á þskj. 261 er lagt til, að borðbúnaður, sem sérstaklega er notaður í sambandi við hótelrekstur, verði lækkaður úr 100% tolli í 50% toll og var sú tillaga samþ. Það er talið, að hagkvæmara sé í alla staði að halda ákvæðum þessara liða óbreyttum, þ. e. tollinum í tollskránni óbreyttum, en veita hins vegar fjmrh. heimild til þess að lækka eða endurgreiða toll allt að 50% af því, sem brtt. á þskj. 261 átti við, og er það b-liður brtt. frá hv. fjhn. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið. N. leggur til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr. og að gerðar verði á frv. þær breytingar, sem lagðar eru til á þskj. 290.