23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (4630)

361. mál, læknadeild háskólans

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar, sem hann gaf, en því miður get ég ekki að sama skapi verið þakklátur fyrir ályktanirnar, sem hann dró. Þeim er ég alveg ósammála. Mér finnst það mikill ljóður á ráði hæstv. ráðh., að hann skuli vera sannfærður um það nú þegar, að það séu útskrifaðir nægilega margir læknar. En það er náttúrlega atriði, sem menn geta haft mismunandi skoðanir um. Hann minntist á, að gert hefði verið álit um læknaþörfina á Íslandi, og það mun vera rekstrarhagfræðingur, dr. Kjartan Jóhannsson, sem hefur gert þessa skýrslu, sem hæstv. ráðh. las upp. Þar virðist talsvert mikið byggt á því, hve margir læknar séu útskrifaðir í nálægum löndum og miðað við fólksfjölda þar og svo hvernig ástatt er hér í þessu tilliti. En ég fullyrði, að þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt. Við þurfum miklu fleiri lækna miðað við íbúa en þeir í nágrannalöndunum af þeirri einföldu ástæðu, að okkar læknar nýtast ekki nándar nærri eins mörgu fólki hver og þar á sér stað. Þetta munar svo miklu, að ég geri ekki ráð fyrir því, að þeir, sem hafa haft þessi mál með höndum, hafi gert sér grein fyrir því, hversu munurinn er stórkostlegur, og ég vildi leyfa mér að fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann láti þessi mál í skoðun og þá skoðun hafi með höndum ekki aðeins einn maður, hversu góður sem hann er, og ekki aðeins læknar, heldur einnig aðrir menn, sem þekkja til annarra hliða þessara mála. T. d. yrði í því sambandi gaumgæfilega skoðað, hvernig spítalalæknar notast hér samanborið við það, sem gerist á Norðurlöndum. Ég hef hugmynd um, að spítalalæknar notist hér miklum mun verr, enda er það ekkert einkennilegt, þegar okkar spítalar eru litlir, en þeir hafa stóra spítala samanborið við okkar aðstæður. Einnig að sérfræðingar í hinum vandasömustu greinum hér hljóti að nýtast miklu verr en nokkurs staðar annars staðar. Það eru einmitt þessi atriði, sem valda því, að ég tel, að menn sjái þessi mál hér í algjörlega röngu ljósi. Útkoman er sú, að þótt leitað sé með logandi ljósi og í boði séu einhverjar hæstu tekjur á Íslandi, þá er ekki hægt að fá menn til að taka að sér héraðslæknisstörfin.

Getur nokkur maður með heilbrigða skynsemi haldið því fram, að þegar svona er ástatt áratug eftir áratug, þá sé nóg af læknum? Það er ekki hægt að benda á neina lækna, sem ekki geta skapað sér aðstöðu, sem þeir meta meira en þessa, sem þarna er hægt að fá. Það er óhugsandi, að það geti verið nægilega mikið af læknum til. Ég skora þess vegna á hæstv. ráðh., að hann láti skoða þessi mál, setja við skulum segja þrjá eða fimm menn, sem hafa mismunandi sjónarmið í þessu, til þess að bera saman bækur sínar.

Að lokum vil ég svo þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann upplýsti, að ætlunin væri að bæta á næstunni úr húsnæðisskorti læknadeildarinnar, þannig að það ætti ekki að standa á húsnæði. En áætlanir um læknaþörf Íslands þarf alveg tvímælalaust að endurskoða, og það er áreiðanlega ekki hægt að sannfæra nokkurn mann, sem stendur í því að reyna að útvega héraðslækna í dreifbýlið, um að það sé til nóg af læknum. Það er alveg útilokað, að hægt sé að sannfæra nokkurn mann um það, sem í því stendur ár út og ár inn, og skilyrðin eins og alþekkt er. Auðvitað þarf ekki að bæta þau á ýmsum stöðum. Það hljóta að vera í þessu einhverjir faktorar, sem ekki hafa verið teknir nægilega til greina, og ég vil enn endurnýja þetta við hæstv. ráðh., að hann láti skoða þessi mál betur og fleiri komi til.