23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í D-deild Alþingistíðinda. (4632)

361. mál, læknadeild háskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst, að hér er um mjög mikilvægt og afar vandmeðfarið mál að ræða, og ég skal því gjarnan verða við tilmælum hv. 1. þm. Austf. um að láta skoða nánar þær upplýsingar, sem ég gerði hér grein fyrir, og þau miklu gögn, sem fyrir hendi eru í menntmrn. og Háskólanum um þetta mál, og skal með ánægju lýsa því yfir, að ég skal hafa samráð við hann. Og ef forustumenn annarra stjórnarandstöðuflokka óska eftir aðild að þeirri athugun, þá er sjálfsagt að veita hana, og ég mundi kveðja til hennar auk embættismanna í menntmrn., sem gerþekkja málið, fulltrúa frá Háskólanum og fulltrúa frá heilbr.- og trmrn., sem einnig hafa grandskoðað málið.

Um mörg undanfarin ár hefur einmitt þetta vandamál verið skoðað, að því er ég tel, af fyllstu samvizkusemi. Og meginniðurstaðan er sú, sem ég gat um áðan, að aðstaða læknadeildarinnar til þess að brautskrá stúdenta sé nú nægileg. En ég geri mér alveg ljóst, og hv. 1. þm. Austf. fer þar með engar ýkjur, að læknavandamáli dreifbýlisins verður ekki lýst með nógu sterkum orðum.

En það, sem menn hefur greint á um, er það, hvernig á því vandamáli eigi að taka. Það er áratuga gamalt hér á hinu háa Alþingi, áratuga gamalt. Löngu áður en talað er um nokkurt vandamál í sambandi við læknadeildina, þá er þetta vandamál fyrir hendi og hefur aldrei tekizt að finna á því viðunandi lausn, því að ég kalla ekki ástandið í læknamálum dreifbýlisins viðunandi, því fer víðs fjarri. En sérstaklega nákvæmlega lét ég athuga þetta mál um læknaþörfina og getu læknadeildarinnar til þess að brautskrá stúdenta, þegar hin nýja reglugerð um læknanámið var sett núna fyrir rúmu ári. Og niðurstaðan varð sú, að læknaþörfin væri á næstu árum eins og ég gat um áðan í skýrslunni, niðurstöður hennar voru 24–25. Þegar læknadeildin óskaði eftir heimild til þess að takmarka fjölda þeirra, sem héldu áfram læknanámi eftir fyrsta ár, eftir að hún hafði fallizt á það sjónarmið mitt að takmarka ekki inngöngu til fyrsta árs námsins, þá setti ég það skilyrði, að ekki mætti takmarka fjölda þeirra, sem héldu áfram, við lægri tölu en 24, til þess að hún væri í hærri kantinum af þeirri áætlun, sem í gildi var, 20–25 læknar á ári næstu árin, og um þetta var fullkomið samkomulag á sínum tíma. Við þetta bætist svo, að læknadeildin notaði ekki þessa heimild núna á þessum vetri mér persónulega til mikillar ánægju, svo að búast má við því, eins og ég gat um raunar áðan og skal ekki endurtaka hér, að þeir læknar, sem brautskrást á allra næstu árum, verði mun fleiri en þessi áætlun, sem gerð er að beztu manna yfirsýn, hefur leitt í ljós, að eðlileg þörf væri fyrir.

Ég skal fyllilega viðurkenna, að verið gæti, að önnur sjónarmið þyrftu að ríkja í landi, þar sem byggð er háttað eins og hér á Íslandi, en á sér stað t. d. í öðrum nálægum löndum, þó að ég sjái nú ekki betur en að aðstæður séu mjög svipaðar hér og t. d. í Norður-Noregi og Norður-Svíþjóð. Eins má vel vera, að það sé nokkuð til í því, sem hv. þm. sagði, að kostur spítalalækna nýtist hér með öðrum hætti vegna smæðar spítalanna en á sér stað í nálægum löndum. Þessi atriði tel ég sem sagt sjálfsagt, að athuguð séu nánar og ekkert nema gott geti af því hlotizt, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hér á hinu háa Alþingi, sem ekki eiga aðgang að jafnítarlegum skjölum í stjórnarráðinu og við eigum, þeir fái aðgang að þeim öllum og skoði þau og fái aðstöðu til þess að ræða þau við þá menn, sem við, sem í stjórninni sitjum, byggjum okkar skoðanir á í þessum málum. Ég held, að nánari skoðun og umr. geti ekki gert nema gott, og þess vegna er ég fús til þess að efna til þeirra.

Að því er orð hv. þm. Kristjáns Ingólfssonar snertir, vildi ég aðeins bæta við örfáum setningum. Ég teldi vafasamt að byggja brautskráningu lækna úr háskóla á þeim gamalkunnu hagfræðilögmálum um framboð og eftirspurn, vegna þess að ég er ekki viss um, að það hefði góð áhrif á menntun læknastéttarinnar og þá þjónustu, sem henni er ætlað að veita og nauðsynlegt er, að hún veiti þeim, sem þurfa á þjónustu hennar að halda. Hann sagðist telja, að hemlarnir væru enn í gildi í deildinni. Þeir eru eins og ég gerði grein fyrir, reglugerðin hljóðar þannig, að læknadeildin má takmarka tölu þeirra, sem halda áfram námi, við 24, en hún hefur ekki gert það, þannig að til þessarar stundar hefur aldrei komið til neinnar takmörkunar á inngöngu hvorki á fyrsta ári í læknadeildinni né heldur í framhaldsnámi. Hvort svo verður í framtíðinni, skal ég ekkert um segja. Það er undir mati deildarinnar komið. En til þessarar stundar hefur engum, sem hefur viljað stunda læknisnám eða halda áfram læknisnámi, verið meinað að gera það, og það er mergurinn málsins. Hitt er rétt, sem hv. þm. Kristján Ingólfsson sagði, að eftir gömlu reglugerðinni mátti með sanni segja, að það væri með óeðlilegum hætti ýtt undir það, að læknar byggju sig undir það að verða sérfræðingar, og óeðlilega margir læknar hafa orðið að mínu viti sérfræðingar hér á landi, en óeðlilega fáir tekið að sér að stunda svo kallaðar almennar heimilislækningar. Ég tel eiginlega eina af mikilvægustu breytingunum, sem gerðar voru á læknanáminu fyrir ári, þar sem allt læknanámið var endurskipulagt frá grunni og gert miklu fastara í skorðum en það hefur verið hingað til, árlegur námstími lengdur, en námsárum fækkað, þá tel ég, að til viðbótar þeirri skipulagsbreytingu, sem gerð var á náminu, þá hafi það verið stærsta framfarasporið, að tekin var upp sérstök kennsla einmitt í heimilislækningum, sem hingað til hefur á skort. Í gildandi reglugerð eru skýr ákvæði um víðtæka kennslu í heimilislækningum, sem á að gera mönnum kleift að verða heimilislæknar með hliðstæðri starfsaðstöðu og réttindum og sérfræðingarnir hafa nú. Þetta tel ég vera eitt mesta framfarasporið, sem stigið var með hinni nýju læknadeildarreglugerð.