23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í D-deild Alþingistíðinda. (4639)

362. mál, störf íslenskra starfsmanna í Kaupmannahöfn

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svofelldar fsp.: „Hvernig er háttað samstarfi sendiráðs Íslands, íslenzka prestsins og fulltrúa tryggingaráðuneytisins í Kaupmannahöfn, og hver er verkaskipting milli þeirra?

Hver er árlegur kostnaður af starfsemi hins sérstaka fulltrúa tryggingaráðuneytisins annars vegar og íslenzka prestsins hins vegar?“

Ástæðurnar til þess, að ég ber fram þessar fsp., eru í stuttu máli þessar. Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sá háttur að ráða til starfa í Kaupmannahöfn íslenzkan prest. Þótti mörgum það að vísu nokkuð undarleg ráðstöfun, að þjóðkirkjan íslenzka færi að stunda trúboð í borginni við sundið, enda kom það í ljós mjög fljótlega, að það var erfitt að finna verkefni fyrir þennan ágæta prest. Þá var tekinn upp sá háttur að fela honum að annast ýmiss konar fyrirgreiðslu fyrir Íslendinga, íslenzka sjúklinga og aðra, sem þurftu að fara til Kaupmannahafnar, sérstaklega í sambandi við sjúkrahúsvist, og fóru sögur af því, að presturinn hefði rækt það starf af mikilli prýði. Hins vegar er þetta verkefni, sem að öllu eðlilegu ætti að eiga heima í eðlilegum störfum sendiráðs, og það þyrfti að ráða sérstaklega menntað fólk til slíkra starfa, enda fór það einnig svo, að presturinn í Kaupmannahöfn var ráðinn til starfa í sendiráðinu og vann þar að ýmsum fleiri verkefnum en þessari fyrirgreiðslu við sjúkt fólk. Síðan kom að því, að það var ákveðið hér á þingi að leggja þetta embætti niður. Það voru samþykkt hér sparnaðarfjárlög, eins og menn kunna að muna, og einn liður í þeim var að fella niður þetta prestsembætti. En í sama mund og sú ákvörðun kom til framkvæmda, þá bárust af því fréttir, að annað rn. en fjmrn., þ. e. trmrn., hefði ráðið í sína þjónustu Íslending í Kaupmannahöfn til þess að rækja þessi störf, sem presturinn hafði haft með höndum.

Ekki var þessi ráðstöfun þó neitt borin undir Alþ. og ekki greint frá henni opinberlega, fyrr en farið var að spyrjast fyrir um hana í blöðum. Nú hefur það svo enn gerzt, að Alþ. hefur ákveðið á nýjan leik, að prestur skuli taka upp störf í Kaupmannahöfn og að hann skuli fara m. a. í þau verkefni, sem presturinn hafði áður, að sinna þessari fyrirgreiðslu í þágu sjúkra Íslendinga. Menn hefðu þá getað búizt við því, að þessi sérstaki fulltrúi trmrn. mundi hætta störfum, en það hefur ekki gerzt, þannig að þarna eru nú tveir íslenzkir embættismenn í verkefni, sem ekki var talin ástæða til, að neinn íslenzkur embættismaður rækti fyrir nokkrum árum, og á því er ekki gefin nein skýring, hvernig á þessari útþenslu stendur. Þarna virðist vera að verki eitt af hinum alkunnu lögmálum Parkinsons um útþenslu skriffinnskunnar, og ég hef sem sé borið fram þessar fsp. til þess að fá á þessu nánari skýringar frá hæstv. ríkisstj.