23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í D-deild Alþingistíðinda. (4642)

362. mál, störf íslenskra starfsmanna í Kaupmannahöfn

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þessi fsp. mín fjallaði nú ekki um neitt af stóru málunum, en samt gerðust nú þau tíðindi, að það þurfti tvo hæstv. ráðh. til að svara, og sá einkennilegi atburður er til marks um það, að þarna er eitthvað dálítið einkennilegt á seyði, sem við höfum nú, held ég, ekki fengið eðlilega skýringu á enn þá.

Ég tók eftir því, að hæstv. dómsmrh. forðaðist algerlega að svara þeim lið fsp. minnar, hvernig háttað væri samstarfi sendiráðs Íslands og íslenzka prestsins og, fulltrúa trmrn. í Kaupmannahöfn. Hins vegar skýrði hæstv. ráðh. frá því, hver væri kostnaður við starfsemi prestsins í Danmörku, m. a. að hann hefði í mánaðarlaun 4220 kr. danskar eða rúmar 50 þús. ísl. kr. á mánuði. Einnig gat hæstv. ráðh. um heildarkostnað af starfsemi prestsins á síðasta ári. Sú tala, sem hæstv. ráðh. nefndi, er nú lægri en talan, sem ég tel mig nú hafa örugga vitneskju um, en það getur stafað af því, að í þeirri tölu, sem ég er með, er húsnæðiskostnaður prestsins að sjálfsögðu meðtalinn sem tekjur, en með því móti yrði heildarkostnaður ásamt launum af starfsemi prestsins 1 096 754 kr. á s. l. ári. Auk þess mun presturinn hafa farið fram á nokkra hækkun núna vegna starfa sinna við hús Jóns Sigurðssonar, og hann hefur full diplómatísk hlunnindi hjá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.

En aðalspurningin hjá mér var sú, hvernig háttað væri samstarfi þeirra aðila í Kaupmannahöfn, sem að sögn eru að vinna að sömu verkefnunum. Og svar við því kom fram í ræðu hæstv. félmrh. Hann komst svo að orði:

„Hvað viðkemur samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, þá hefur ekki um neitt slíkt samstarf verið að ræða milli sendimanns heilbr.- og trmrn. og sendiráðsins.“

Þarna er íslenzkur maður að starfa að sérstökum verkefnum á vegum eins rn. hér, og það er ekki um neitt samstarf að ræða milli hans og sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Þetta er alveg furðuleg yfirlýsing að minni hyggju. Og enn fremur sagði hæstv. ráðh.:

„Hvað snertir samvinnu sendimanns heilbr.- og trmrn. og prestanna, sem verið hafa á þessum tíma, þá hafa þeir að mestu unnið hvor á sínu sviði, eins og fram hefur verið tekið hér að framan.“

Þarna eru tveir menn, sem eiga að vera að starfa að sömu verkefnunum, og þeir hafa ekki heldur samvinnu sín á milli. Kannske mæta þeir stundum báðir við íslenzku vélarnar, sem koma með sjúka menn að heiman, og togast hreinlega á um þá. Eða hvernig eiga þeir að vita það, hver tekur að sér verkefnið, ef þeir hafa ekki neina eðlilega samvinnu um slíka hluti? Auðvitað er þetta ástand algerlega fráleitt. Það nær ekki nokkurri átt, að hæstv. ríkisstj. sé með starfsmenn úti í Kaupmannahöfn, sem ekki geta unnið saman. Hvers konar endileysa er það eiginlega?

Hæstv. heilbr.- og félmrh. gerði ítarlega grein fyrir störfum hins sérstaka fulltrúa síns í Kaupmannahöfn, og skal ég ekki gera neina aths. við þá frásögn. Ég skal ekki efa það, að hann og aðrir, sem þarna eru, reyni að láta sem mest gott af sér leiða. Hæstv. ráðh. sagði, að kostnaðurinn af störfum hans hefði á síðasta ári verið 231064 kr. Hins vegar er þess ekki getið, hver væru laun hans nú á mánuði, og væri fróðlegt að fá vitneskju um það. Ástæða er til þess að vekja athygli á því í þessu sambandi, að hér er um að ræða mann, sem gegnir kaupsýslustörfum í Kaupmannahöfn. Þetta er ekki hans aðalstarf, þetta er aukageta. Og það væri mjög fróðlegt að fá að vita, hver vinnutími hans er í þágu rn. í samanburði við þessa upphæð, sem þarna er nefnd.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er mikil þörf á því, að Íslendingar, sem sendir eru til Kaupmannahafnar og raunar Lundúna einnig, eigi kost á fyrirgreiðslu af hálfu íslenzkra aðila, sem þar eru. Margt af þessu fólki er ekki vant að tala erlent mál og getur átt í margs konar vanda, þegar það þarf að sækja til erlendra aðila um lækningar. En ég tel það alveg einsætt, að slík fyrirgreiðsla á að vera í verkahring sendiráðanna á þessum stöðum. Það hefur verið mikið um það rætt, að það þyrfti að endurskoða starfsemi sendiráða vegna breyttra aðstæðna, og það tel ég rétt vera, en ég tel, að sendiráðin eigi einmitt að rækja það verkefni alveg sérstaklega að aðstoða Íslendinga, sem komnir eru þarna í slíkum erindagerðum. Til þess þarf að ráða fólk, sem er sérstaklega til þess lært. Það er orðin sérstök námsgrein í skólum að aðstoða fólk í slíkum vanda, og það á að velja sérfróða menn til slíkra starfa, en ekki telja þau einhverja aukagetu prestlærðra manna, hversu góðir sem þeir kunna að vera, eða einhverja aukagetu kaupsýslumanna á vegum Alþfl., sem kunna að vera á lausum kjala um stundarsakir.