30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í D-deild Alþingistíðinda. (4651)

358. mál, samgöngur við Austurland

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér. Mér þykir einsýnt, að þessi fsp. mín hafi þegar komið að talsverðu gagni, því að hvort tveggja er, að hæstv. ráðh. hefur brugðizt vel við og kallað forstjóra skipafélaganna fyrir sig og fleiri hafa tekið upp á því að halda fund um málið og gert samþykktir um málið, sem síðan hefur þó leitt til þess, að nokkur árangur hefur fengizt í máli, sem við þm. Austf. höfum unnið að hér á Alþ. m. a., að hæstv. ráðh. veitti sína aðstoð við að leysa.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, þá þykir mér ástæða til þess að benda á, að það er alveg fráleitt, þegar forstjórar skipafélaga nefna talsvert háar tölur um viðkomufjölda skipa þeirra á stöðunum sem dæmi um það, hvað samgöngur séu tiltölulega góðar eða a. m. k. sæmilegar við þessa staði. Og ég gat varla heyrt annað á hæstv. ráðh. en að hann teldi þetta nú bara allnokkuð, jafnvel 1–2 ferðir í viku. Það er ekki kvartað undan því, að þessi skipafélög, sem halda uppi þessari þjónustu, sendi ekki sín skip á þessa staði. Vissulega senda þau sín skip á þessa staði til þess að hirða útflutningsvörur frá þessum stöðum. Það hafa þau gert. Þau hafa t. d. orðið að koma til Neskaupstaðar, svo að ég nefni dæmi, um 40 sinnum á einu ári til þess að taka þær þúsundir tonna af framleiðsluvörum, sem þar hafa legið til útflutnings. En á sama tíma sem skipafélögin hafa gert þetta, að koma á þessa staði til þess að taka útflutningsvöruna, þá neita þau þessum stöðum um eðlilega þjónustu með vöruflutninga til staðanna. Það er um það, sem málið snýst.

Það ákvæði hjá Eimskipafélaginu, að ef aðili flytur inn 20–30 tonn í einu, þá geti hann notið sömu flutningsgjalda eins og þegar varan er flutt til Reykjavíkur, leysir vitanlega ekki þann vanda, sem hér er við að eiga, nema í örfáum tilfellum. Á þessum framleiðslustöðum er iðulega verið að flytja inn margs konar vörur, sem ekki ná þessum þunga og verða skiljanlega að flytjast með þessum skipum meira og minna erlendis frá til Reykjavíkur. Hér verða vörurnar að liggja og Austfirðingar verða síðan að borga sérstakt aukaflutningsgjald á þessar vörur frá Reykjavík og til sín. Það er þetta, sem þarf að leiðrétta. Og ég tel, að það, sem hæstv. ráðh. hefur nú gert í þessum málum, sem er nokkuð í áttina, sýni einmitt það, sem við þm. Austf. höfum bent hér á hvað eftir annað í þessum umr., að auðvitað er hæstv. ráðh. það í lófa lagið að kippa þessum málum í lag, því að skipafélögin, bæði Eimskipafélagið og Skipadeild SÍS, verða vitanlega að taka tillit til sanngjarnra krafna, sem koma frá samgrn. um það, að þau eigi að hafa vissar skyldur gagnvart þessum byggðarlögum, sem þau hirða allan útflutninginn frá, og með þeim hætti, sem þau gera, því að þau koma bara til þess að sækja útflutninginn án nokkurrar áætlunar og yfirleitt þannig, að menn á stöðunum hafa enga aðstöðu til þess að nota þær ferðir. Þær falla því til eingöngu vegna þarfa skipafélaganna sjálfra. En það er ekki tími til þess að ræða þetta frekar hér í þessum fsp.-tíma.

Ég þakka sem sagt hæstv. ráðh. fyrir svör hans og fyrir það, hvað hann hefur gert í þessu máli. Það hefur þegar áunnizt nokkuð, en það er nauðsynlegt, að hann og allir átti sig á því, að það þarf að gera meira, til þess að hér sé um viðunandi ástand að ræða.