30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (4661)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að láta í ljós furðu mína yfir málflutningi hæstv. menntmrh. og forstjóra Fræðslumyndasafns ríkisins, hv. 5. þm. Vesturl. Það er ljóst af ræðum þessara manna, að þeir telja ekkert athugavert við það, að kvikmyndir, sem útbúnar eru af hálfu hernaðarbandalagsins NATO, af einhverri áróðursmiðstöð þessa bandalags, að sjálfsögðu í þeim tilgangi að reka áróður fyrir því sem hernaðarbandalagi, þ. e. beinan og óbeinan áróður fyrir hernaði, að slíkar myndir skuli vera notaðar og þeim skuli vera dreift um landið sem fræðslumyndum handa unglingum og börnum. Ég veit ekki, hvað veldur þessu viðhorfi, hvort þessir hv. þm., þessi hæstv. ráðh. og hv. þm. líta svo á, að NATO hafi öðlazt svona álíka rétt í fræðslukerfi okkar eins og Lútherstrú. Það er talið sjálfsagt, sem kunnugt er, þó að við séum ekki tiltakanlega vel kristnir, að mínum dómi, Íslendingar, eða kannske einmitt vegna þess, að hafa uppi kristindómsfræðslu í skólum. En að hvorugur þessara manna skuli hafa uppi minnstu tilburði til þess að afsaka þetta og þaðan af síður, að þeir lýsi því yfir, að þessu skuli hætt, það er vægast sagt furðulegt eða vægast sagt hneykslanlegt. En það leiðir hugann að því og vekur athygli á því, hver þörf er á, að menn hafi vakandi auga með þessum stofnunum, sem bera sakleysisleg nöfn, eins og t. d. Fræðslumyndasafn ríkisins.

Það er m. ö. o. niðurstaðan af málflutningi þessara tveggja hv. manna, hæstv. ráðh. og hv. þm., að í landafræðikennslu sé heppilegt eða að það sé ekkert athugavert við það, að í landafræðikennslu sé notuð áróðursmynd um hernað Tyrkja. Hvernig væri nú t. d, í þjóðfélagsfræði að hafa fræðslumynd frá Grikkjum og þá með sérstöku tilliti til lýðræðis? Það er önnur NATO-þjóð. Eða þá eina fræðslumyndina frá enn einni NATO-þjóðinni, Portúgölum, um mannréttindi almennt og t. d. nýlendustefnuna í framkvæmd?