30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (4664)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður er mjög duglegur við það að leggja mér og hæstv. ráðh. skoðanir og jafnvel orð í munn og rangtúlka það, sem við höfum hér sagt. Ég vil ítreka það, að Fræðslumyndasafnið hefur reynt að afla sér margvíslegra mynda víða að. Ég er nýbúinn að leggja þó nokkra áherzlu á að ná í enska mynd frá Kína, eins og það er í dag, og ég get nefnt fjöldamargar slíkar myndir, sem ég tel vera fróðlegar og gjarnan megi nota, en við þessi skilyrði, að það sé sagt, hvaðan myndirnar eru og um hvað, og að kennararnir skoði þær og velji sjálfir.

Það er hægt að tala um hlutleysi sem algjört skoðanaleysi, en ég er hræddur um, að fjölmiðlunartæki, hvort sem eru kvikmyndir eða blöð eða bækur eða leikrit, muni þykja því betri, sem meiri skoðanir eru í þeim.

Ég vil ítreka það, að það eru í Fræðslumyndasafninu yfir 1400 titlar af kvikmyndum, og ég hef ekki getað skoðað nema brot af þeim. Það er algjörlega útilokað.

Ég hef skoðað hverja einustu, sem hefur komið til safnsins, síðan ég kom þangað, og ég vil reyna að fá sem mesta fjölbreytni í myndum úr öllum mögulegum áttum. Ég tel mig hafa sýnt að því leyti til fullkomið hlutleysi, að ég hef reynt að afla mynda,— ja, ekki frá Suður-Afríku, ég verð að játa það, ég hef engan áhuga á því, — en t. d. bæði úr austri og vestri, frá þeim aðilum, sem hafa meginlífsskoðanir og viðhorf, sem ganga í gegnum landafræði, sögu og félagsfræði í nútímakennslu. Ég gæti sýnt hv. þm. nokkrar sovézkar myndir, sem er mjög hæpið að mundu teljast hlutlausar eftir mælikvarða hans, en ég tel vera þess virði, að kennarar eigi kost á þeim, ef þeir vilja nota þær, af því að þær eru mjög fróðlegar, þær sýna, hvernig ástand er í stóru landi, eins og yfirvöld þar kynna sjálf sig. Ég gæti nefnt fjöldamargar fleiri. Það má að vísu taka pólitískan áróður sérstaklega, en það er til alls konar annar áróður, sem við rekum vísvitandi. Ég kaupi myndir, sem eru áróður á móti tóbaksreykingum, áfengi og eiturlyfjum. Ég kaupi myndir, sem eru áróður fyrir hugsjónum eins og Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra. Hvar á að draga línurnar? Ég held, að það hafi ekki orðið neitt tjón, og ég held ekki, að það sé ástæða til að æsa sig upp á þann hátt sem hv. síðasti ræðumaður gerði.

Ég treysti íslenzkri kennarastétt fullkomlega til þess að velja kvikmyndir, sem viðkomandi kennarar telja, að komi að gagni. Þeir hafa mismunandi skoðanir, og sumir vilja þessar myndir, en aðrar ekki. Það er þeirra frelsi. Til þess er gefin út kvikmyndaskrá með upplýsingum, og í þeirri skrá er vandlega tekið fram um þessar umræddu myndir, sem safnið fékk fyrir 15 árum síðan, hvaðan þær eru upprunnar. Fræðslumyndasafnið segir engum kennara, hvað hann eigi að sýna. Það reynir af litlum efnum að afla eins mikils og fjölbreytts kvikmyndakosts og það getur. Síðan geta þeir íslenzkir kennarar, sem mestan áhuga hafa á að nota kvikmyndir, valið. Þeir hafa frelsi til þess að velja og hafna.