30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í D-deild Alþingistíðinda. (4669)

364. mál, náttúrugripasafn

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég spyrst fyrir um það, hvenær áformað sé að koma upp fullgildu náttúrugripasafni í Reykjavík. Ástæðan til þess, að ég ber þessa fsp. fram, er sú, að nýlega var safnað hér á Íslandi allverulegri upphæð til þess að kaupa uppstoppaðan geirfugl til landsins. Þessi kaup voru gerð. Fuglinn er kominn hingað. En þá hlýtur maður að leiða hugann að þeirri staðreynd, að ástandið á Náttúrugripasafninu er þannig, að mjög verulegur hluti af þeim náttúrugripum, sem við eigum, er lokaður niðri í kössum og ekki hægt að sýna þá, hvorki hægt að sýna þá almenningi né veita t. d. nemendum í þessum fræðum aðstöðu til þess að vinna úr þeim.

Það er mjög slæmt ástand á þessu sviði, eins og raunar fleirum, og um það hefur verið talað langa hríð, að úr þessu verði að bæta. En sem sagt, það er þannig ástatt núna, að aðeins er um að ræða lítinn en mjög smekklegan sýningarsal í húsakynnum Náttúrufræðistofnunarinnar á Laugavegi 105. En mest af eigum okkar af náttúrugripum er lokað niðri í kössum.

Það hefur lengi verið um það talað, að það þurfi að sameina Náttúrufræðistofnunina og Háskólann, og það tel ég vera mjög rétta stefnu til þess að nýta sem bezt sameiginlegar eignir: gripi, tæki og bækur. En öll framkvæmd á þessu sviði hefur gengið ákaflega seint.

Annað atriði í þessu sambandi er einnig íhugunarefni. Það er staðreynd, að áhugi almennings hér á Íslandi á náttúrufræði er mun almennari en tíðkast í öðrum þjóðfélögum. Hreinar fræðibækur um náttúrufræðileg efni seljast hér á Íslandi í stórum upplögum. Þess vegna ber okkur skylda til þess að auka sem bezt við getum tengslin á milli vísindamanna og fræðimanna annars vegar og hins vegar almennings, og það verður mjög vel gert einmitt með stofnun eins og náttúrugripasafni, þar sem almenningur getur skoðað slíka muni, aukið þekkingu sína og hagnýtt sér þá vitneskju í sambandi við ferðalög sín og náttúruskoðun.

Áhuginn á þessu efni kom fram, eins og ég sagði áðan, í kaupunum á hinum uppstoppaða geirfugli, en áhugi á þessu sviði hefur einnig birzt á annan hátt. Hér hafa verið stofnuð mörg lítil söfn af ýmsu tagi, tengd náttúrufræðum, af miklum vanefnum af einkaaðilum. Þetta sýnir áhugann, en þetta er að sjálfsögðu ekki sú lausn, sem við þurfum að stefna að. Ef við ættum að hafa hér myndarlegt náttúrugripasafn, þá verður það að vera skipulagt á vegum ríkisins og í tengslum við Háskóla Íslands. Ég tel þetta vera býsna stórt mál og vænti þess, að hæstv. ráðh. geti grein Alþ. frá því, hvernig áformin eru nú um þessar mundir.