18.12.1970
Neðri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

161. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mesti misskilningur hjá hæstv. forsrh., að þessi till. okkar hv. 5. þm. Austf. sé nokkuð óþingleg. Ég held, að það megi finna þess fjölmörg dæmi í þingsögunni, að Alþ. hafi samþ. till., sem hafa falið það í sér, að ríkisstj. eða einhverjum ákveðnum aðila væri falið að fjalla um ákveðið verkefni eða undirbúa ákveðið mál og leggja það fyrir næsta þing. Það vannst að sjálfsögðu ekki tími til þess að finna þessi dæmi núna, vegna þess að umr. er að ljúka alveg í svipinn, en ég held, að færum við hæstv. forsrh. í það saman að blaða í þingtíðindum, þá mundum við finna æðimörg dæmi þess, að þetta hafi verið gert, þannig að það er hinn mesti misskilningur hjá honum, að fordæmi sé ekki fyrir þeim vinnubrögðum, sem lagt er til, að hér verði viðhöfð. Það er rétt, að ákveðinni embættismannanefnd er falið að vinna þetta verk, en það er alveg skýrt tekið fram í till., hvernig verkefnið skuli unnið og að hverju hún skuli stefna, þannig að hér er ekki um annað en hrein formleg vinnubrögð af nefndarinnar hálfu að ræða, en hún þarf ekki að taka neina afstöðu til mála, heldur eingöngu fara eftir því, sem sagt er í till., þ. e. að fella niður þá tolla, sem nú leggjast á efni og vélar til iðnaðarins. Það er ekki frambærileg ástæða til þess að vera á móti þessari till., að hún sé óþingleg, þ. e. ef menn eru á móti henni, þá eru aðrar ástæður, sem valda því.